Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 01. febrúar 2020 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ögmundur maður leiksins - Aron lagði upp sigurmark
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Sigurðarson.
Aron Sigurðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur Kristinsson var maður leiksins þegar Larissa gerði markalaust jafntefli gegn OFI í grísku úrvalsdeildinni á þessum laugardegi.

Íslendingavaktin vekur athygli á frábærri frammistöðu Ögmundar. Hann fær lof í grískum fjölmiðlum fyrir frammistöðu sína.

Larissa er í níunda sæti deildarinnar með 25 stig eftir 22 leiki. Ögmundur er að eiga fínt tímabil í Grikklandi.

Kollegi Ögmundar í landsliðinu, Rúnar Alex Rúnarsson, sat á varamannabekknum hjá Dijon í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið vann 3-0 sigur á Brest. Rúnar spilaði í franska bikarnum í vikunni, en hann náði ekki að halda sæti sínu.

Rúnar hefur aðeins spilað sex leiki í frönsku úrvalsdeildinni hjá Dijon á tímabilinu. Dijon er í 16. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.

Aron lagði upp í sigri
Í belgísku B-deildinni lagði Aron Sigurðarson upp fyrir St. Gilloise í 2-0 útisigri á fyrrum Íslendingafélagi Lokeren.

Aron lagði upp fyrra mark síns liðs undir lok fyrri hálfleiks, en hann var síðan tekinn af velli eftir um stundarfjórðung í síðari hálfleiknum. Leikurinn endaði eins og fyrr segir 2-0.

St. Gilloise er sem stendur í fimmta sæti B-deildarinnar. Mótinu er skipt upp í tvennt og stendur síðari helmingurinn núna yfir. Í fyrri hluta mótsins hafnaði St. Gilloise í fjórða sæti. Keppnisfyrirkomulagið í Belgíu er vægast sagt flókið.

Í belgísku A-deildinni lék Ari Freyr Skúlason, fyrrum leikmaður Lokeren, í 1-0 sigri á Oostende á Sint-Truiden.

Oostende er í næst neðsta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá neðsta liðinu, Cercle Brugge.

Aron kom inn á í tapi
Aron Bjarnason kom inn á sem varamaður á 57. mínútu þegar lið hans, Ujpest, tapaði á heimavelli gegn Fehérvár í úrvalsdeildinni í Ungverjalandi.

Aron kom inn á í stöðunni 0-0, en leikurinn endaði 1-0. Ivan Petryak skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Ujpest er í sjöunda sæti deildarinnar í Ungverjalandi. Aron hefur á þessu tímabili komið við sögu í 16 úrvalsdeildarleikjum með Ujpest. Hann fékk félagaskipti þangað frá Breiðabliki síðasta sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner