
„Það er gríðarleg ánægja, frábært að fara héðan af erfiðum útivelli og fara með þrjú stig," sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH eftir sigur á Þór/KA í 6. umferð Bestu deildar kvenna á Akureyri í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 2 FH
„Mér fannst Þór/KA byrja betur, unnu einföldu atriði fótboltans. Þær voru að vinna tæklingarnar og baráttuna og þrýstu okkur vel inn á okkar vallarhelming, hefðu getað nýtt sér það. Þær fengu fullt af hornspyrnum á þessu momenti en nýttu það ekki en við nýttum það færi sem við fengum," sagði Guðni.
Guðni segir að hann hafi rætt um það í hálfleik að koma með meiri baráttu inn í seinni hálfleik sem þær gerðu svo sannarlega.
„Liðið sigraði í grunngildunum. Unnu baráttuna í tæklingum, baráttu, vilja og dugnaði og því fór sem fór," sagði Guðni.
„Þessi sigur þýðir að við erum með í þessu móti. Við þurftum virkilega á sigri að halda og það var frábært að ná að halda hreinu, það skiptir máli líka."