Víkingur Ólafsvík fór tómhent heim úr toppslagnum í 2. deild gegn Selfossi í kvöld. Selfoss er komið með níu stiga forystu á toppi deildarinnar eftir þennan sigur. Fótbolti.net ræddi við Brynjar Kristmundsson þjálfara Víkings eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Selfoss 2 - 1 Víkingur Ó.
„Eins og við vissum vorum við mikið með boltann. Þeir eru ótrúlega góðir að refsa andstæðingum og við lentum í því sérstaklega í seinna markinu þar sem við töpum boltanum óþarflega á miðjunni. Að fara 2-0 inn í hálfleik er allt annað en 1-0. Mér fannst við eiga meira skilið eitthvað meira en ekki neitt," sagði Brynjar.
Víkingur skoraði mark í stöðunni 2-1 sem var dæmt af vegna rangstöðu en Brynjar var ósammála þeim dómi.
„Þetta er ógeðslega pirrandi en ég er ógeðslega stoltur af strákunum í mótlæti. Ég veit ekki með vítaspyrnuna en mér fannst hún 'soft'. Mark sem við skorum sem er dæmt af vegna rangstöðu þar sem boltinn fer af andstæðing, það er mjög dýrt spaug í svona leik," sagði Brynjar.
„Ég fékk útskýringu frá honum eftir leik. Fyrst að okkar maður hoppar upp með Selfyssingnum þá er það snerting. Ég hef aldrei heyrt þetta áður, ég þarf að kíkja í reglubókina, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt," sagði Brynjar.
„Ég veit ekki hvenig það yrði orðað. Hversu mikið þarf hann að reyna við boltann, þetta er bara snerting frá Selfyssing á okkar mann og hann skorar. Ég verð að treysta því að hann sé með reglurnar á hreinu en ég set spurningamerki við þetta."