Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fim 01. ágúst 2024 22:50
Sverrir Örn Einarsson
„Ef þú ert jákvæður og berst fyrir augnablikinu“
Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar tryggðu sér áframhald í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu er liðið bara 2-0 sigurorð af Egnatia frá Albaníu á útvelli fyrr í kvöld. Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var á línunni við Fótbolta.net nú í kvöld og sagði um tilfinninguna.

Lestu um leikinn: Egnatia 0 -  2 Víkingur R.

„Hún er bara virkilega góð, strákarnir stóðu sig eins og hetjur og mér fannst við bara eiga virkilega flottan leik í fyrri hálfleik og kannski fyrstu tíu í seinni. Svo eðlilega fóru menn að verja forskotið, kannski fullsnemma að mínu áliti en svona gerist á öllum stigum fótboltans að hitt liðið sem hefur engu að tapa hendir öllu fram.“

Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og þrýstu liði Egnatia alveg að eigin teig frá fyrstu mínútu. Eitthvað sem lagt var upp með eftir fyrri leikinn og menn sáu möguleika á?

„Já, þetta er búið að vera mjög skrýtin Evrópuferð. Shamrock leikirnir voru ekki slæmir og heimaleikurinn var ekki slæmur heldur var bara eitthvað aðeins "off" og að mínu mati er þetta bara smá svona andlegt. Það er búið að vera smá sorg í Evrópukeppnum og verið svolítið næstum því og naum töp á móti sterkum andstæðingum. Ekkert ósvipað og tímabilin 2019 og 2020 þar sem við erum að búa til gott lið en það vantar alltaf eitthvað aðeins upp á að frammistaða sé góð. Svo springum við út 2021 og áfram. Þetta er akkúrat það sem við þurfum að gera í Evrópu. Stundum þarftu að fara í gegnum smá sorg til að upplifa smá dýrð en nú erum við búnir að gera það í Evrópu og kominn tími á okkur að stíga upp. Þannig að það var virkilega Víkingsstimpill á frammistöðunni í kvöld. Erfiður útivöllur og hiti og erfiðar aðstæður svo ég var virkilega ánægður með strákanna.“

Gísli Gottskálk Þórðarson og Viktor Örlygur Andrason sem hafa ekkert endilega verið fastamenn í byrjunarliði Víkinga áttu prýðisleik á miðjunni í kvöld. Arnar eyddi nokkrum orðum í að ræða þá og þeirra frammistöðu.

„Mig hefur lengi langað að spila þeim þremur saman á miðjunni. Pablo, Gísla Gotta og Viktori sem eru klárlega allir þrír frábærir fótboltamenn. Form og aðrir hlutir hafa komið í veg fyrir það.“

„Viktor, það þekkja flestir til hans, hann er að mínu mati einn allra besti fótboltamaðurinn á landinu. Hann átti frábært undirbúningstímabil en svo meiðist hann og er frá í þrjá mánuði og var bara lengi að koma sér í gang. Þá var liðið að vinna og við að reyna að gefa honum mínútur hingað og þangað á meðan að hann er að koma sér í stand. Þetta var akkúrat leikur fyrir hann með mikið Víkingshjarta og hans hæfileika. Með Gísla Gott þá held ég að okkur hafi tekist að stýra honum mjög vel frá því að hann kemur til okkar. Gefa honum stórleiki, gefa honum mínútur og svo er hann bara tilbúinn. Eins og Gaui Þórðar minn gamli þjálfari orðaði það um okkur 73' og 74' árganginn drengirnir orðnir að mönnum og Gísli Gotti er orðinn bara maður núna. Bara frábær leikmaður sem er farinn að skilja það að maður þarf stundum að vinna smá skítavinnu til að verða fullmótaður leikmaður.“

Fréttaritara datt ekki til hugar að skrá fyrra mark Víkinga sem kom eftir skot Gísla sem sjálfsmark þótt það hefði átt viðkomu í tveimur varnarmönnum áður en í netið kom. Var þetta fallegasta ljóta mark sem Arnar hefur séð?

„Maður er orðinn 51 árs gamall og hefur séð ýmislegt og ef einhver hefði sagt mér fyrir þetta einvígi að markið sem myndi setja tóninn í þessu einvígi væri akkúrat svona eftir þau færi sem við höfum fengið hingað til. Ég trúi því bara statt og stöðugt að ef þú ert jákvæður og berst fyrir augnablikinu þá munu hlutir bara detta fyrir þig. Þú þarft hæfileika og allt það en þú þarft líka heppni til að komast í gegnum einvígi og leiki og að vera á öllum vígstöðvum. Ég er ekkert feiminn að segja það en ég ítreka það að þú þarft að vinna fyrir þessu.“

Næsti andstæðingur Víkinga í forkeppni Sambandsdeildarinnar er lið Floria Tallinn frá Eistlandi en áður en að því kemur mæta þeir FH í Kaplakrika næstkomandi mánudag. Víkingar mættu grönnum Flora í Levadia árið 2022 í forkeppni Meistaradeildarinnar og unnu þar stórsigur en hvernig metur Arnar möguleika Víkinga gegn Flora?

„Ég met möguleika okkar bara mjög góða. Svo er það spurning hvernig dagsformið verður og þess háttar. En eins og staðan er í dag og það litla sem við höfum kíkt á þá að þá held ég að við eigum bara góða möguleika á að fara áfram. Það er eitthvað sem við ættum að stefna á. Allir Víkingar að mæta vel í Kaplakrika sem verður erfiður leikur á móti mjög sterku liði og reyna að nýta "mómentumið" sem er að gerast innan vallar utan vallar. Það eru auðvitað margir búnir að vera í fríi í júlí og þess háttar og verið smá deyfð yfir okkar fólki og menn í frígír. En núna eftir úrslitin í kvöld er bara að bretta upp ermarnar og styðja liðið.“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner