Egnatia 0 - 2 Víkingur R.
0-1 Gísli Gottskálk Þórðarson ('28 )
0-2 Aron Elís Þrándarson ('47 )
Lestu um leikinn
Víkingur er komið áfram í næstu umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar eftir sigur á Egnatia ytra í kvöld.
Víkingur var með bakið uppvið vegg fyrir leikinn þar sem liðið tapaði fyrri leiknum 1-0 í Víkinni. Víkingur hóf leikinn af krafti og það bar árangur eftir tæplega hálftíma leik þegar Gísli Gottskálk Þórðarson átti skot sem fór af tveimur varnarmönnum og sveif í netið.
Víkingur hefði getað komist í forystu í einvíginu fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Danijel Dejan Djuric var í dauðafæri en hann skaut yfir markið.
Það kom ekki að sök því strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Aron Elís Þrándarson eftir að boltinn barst til hans af varnarmanni Egnatia inn á markteiginn og eftirleikurinn auðveldur fyrir Aron.
Egnatia fékk tækifæri til að jafna metin í einvíginu en Ingvar Jónsson átti stórkostlega vörslu þegar leikmaður Egnatia var í dauðafæri. Egnatia setti mikla pressu á Víkinga í uppbótatíma en náði ekki að ógna mikið og sigur Víkinga staðreynd. Víkingur mætir Flora frá Eistlandi í næstu umferð en fyrri leikurinn fer fram í Víkinni.