
Sigurmark Suðurnesjamannsins Arnórs Ingva Traustasonar gegn Austurríki á Evrópumótinu mun aldrei gleymast. Það mark færði okkur leikinn gegn Englandi. Arnór viðurkennir að hafa horft á markið nokkru sinni eftir EM!
„Það er komið eitthvað yfir 20 skiptin örugglega. Það er gaman að upplifa þetta aftur," segir Arnór sem segir að menn hafi þó þurft að vera fljótir niður á jörðina.
Arnór er ásamt öðrum í íslenska landsliðinu að búa sig undir fyrsta leik í undankeppni HM sem verður á mánudaginn gegn Úkraínu í Kænugarði. 70 þúsund sæta leikvangurinn í Úkraínu verður tómur vegna dóms UEFA eftir að stuðningsmenn úkraínska liðsins gerðust sekir um kynþáttafordóma.
„Maður þarf að mótivera sig á einhvern hátt sjálfur, maður fær það ekki frá stúkunni. Við erum meðvitaðir um það og við búum okkur undir það."
Arnór vill ekki meina að það hagnist íslenska liðinu að leikvangurinn verður tómur.
„Þetta mun leggjast á bæði lið held ég. Þrátt fyrir að maður spili á útivelli þá gefur það manni mikið að heyra fólk syngja og öskra í stúkunni."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar tjáir Arnór sig meðal annars um lífið hjá Rapid Vín.
Athugasemdir