Máni Pétursson, sérfræðingur á Stöð 2 Sport, segir að vítaspyrnudómurinn í Kórnum í dag hafi að sínu mati verið réttur. Arnar Freyr Ólafsson markvörður HK var dæmdur brotlegur og ÍBV skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum.
Lestu um leikinn: HK 0 - 1 ÍBV
„Mér finnst þetta vera vítaspyrna, ég verð að vera heiðarlegur með það. Hann fer með lappirnar á undan sér og keyrir niður manninn. Ég er á því að þetta sé víti," sagði Máni í Tilþrifunum á Stöð 2 Sport í kvöld.
HK-ingar voru allt annað en sáttir við þennan dóm Vilhjálms Alvars dómara leiksins en Máni beindi umræðunni að frammistöðu liðsins.
„Hversu lélegt hefur þetta HK lið verið í undanförnum leikjum? Þeir hafa fengið endalaus tækifæri til að snúa þessu við en það hefur ekkert verið að gerast. HK verður áfram í efstu deild á næsta ári en félagið verður að skoða það að skipta um heimavöll. Það nennir enginn að spila í Kórnum og þeir virðast heldur ekki nenna því. Þetta hefur verið mjög vont hjá HK upp á síðkastið," sagði Máni í þættinum.
Kórinn hefur ekki gefið HK marga sigra á þessu tímabili, liðið hefur aðeins unnið þrjá af fjórtán leikjum sínum á heimavelli í Bestu deildinni í sumar, sjö hafa endað með jafntefli.
Athugasemdir