Vestri tryggði sér sæti í Bestu deildinni með sigri gegn Aftureldingu í úrslitaleik umspilsins á Laugardalsvelli.
Vestramenn enduðu í fjórða sæti deildarkeppninnar og voru svo bestir í nýju fyrirkomulagi deildarinnar.
Vestramenn enduðu í fjórða sæti deildarkeppninnar og voru svo bestir í nýju fyrirkomulagi deildarinnar.
Það er áhugavert að horfa til baka núna því Vestri byrjaði alls ekki vel í Lengjudeildinni á tímabilinu. Liðið tapaði þremur af fyrstu sex leikjum sínum og var Vestri í tíunda sæti eftir sex umferðir með aðeins fimm stig.
Á þeim tímapunkti þá fer Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, í viðtal hér á Fótbolta.net þar sem hann lét sína menn heyra það.
„Ég ætla að vera hreinskilinn. Ég er kominn með leið á því að tala um að við höfum spilað vel. Við erum að gefa mörk trekk í trekk og þetta er ofboðslega lélegt. Ég er kominn með nóg af því að menn séu að kenna öðrum um. Menn þurfa að taka ábyrgð og fara að vakna. Þetta er erfið deild og leikmenn Vestra þurfa að vakna," sagði Davíð pirraður eftir 3-1 tap gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ.
Þetta kostulega viðtal má sjá með því að smella hérna en það er óhætt að segja að leikmenn Vestra hafi vaknað í kjölfarið.
Þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum það sem eftir var af mótinu og náðu í meira en tvö stig að meðaltali í leik í síðustu 16 leikjunum. Núna er liðið að fara að spila í Bestu deildinni á næsta ári.
Athugasemdir