Real Madrid girnist Palmer - Arsenal og Man Utd berjast um David - City reynir að lokka Wirtz frá Leverkusen
   lau 02. nóvember 2024 10:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Atli Hrafn á leið í KR - Vilja annan frá HK en fá samkeppni
Atli Hrafn Andrason.
Atli Hrafn Andrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Gauti Sæbjörnsson.
Eiður Gauti Sæbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Hrafn Andrason er samkvæmt heimildum Fótbolta.net á leið í KR. Samningur hans við HK rennur út um miðjan mánuðinn.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari og yfirmaður fótboltamála hjá KR, hefur verið duglegur að ná í leikmenn sem hann þjálfaði á sínum tíma í yngri flokkum KR og Atli Hrafn bætist í þann flokk.

Atli er 25 ára sóknarsinnaður miðjumaður/kantmaður sem uppalinn er hjá KR, fór út í akademíu Fulham og hefur í meistaraflokki leikið með Víkingi, Breiðabliki, ÍBV og HK. Hann skoraði tvö mörk í 23 leikjum í deildinni með HK sem féll niður í Lengjudeildina.

Þá er Eiður Gauti Sæbjörnsson samkvæmt heimildum Fótbolta.net á óskalista KR. Hann er líkt og Atli Hrafn 25 ára. Eiður Gauti er framherji sem tók slaginn með HK í efstu deild eftir fimm tímabil með Ými í 3. og 4. deild.

Hann er uppalinn hjá HK og skoraði þrjú mörk í 13 deildarleikjum í sumar. Samningur hans við HK rennur út í lok árs. Faðir Eiðs, Sæbjörn Guðmundsson, lék með KR á sínum ferli.

KR fær þó samkeppni um krafta Eiðs Gauta því Víkingur hefur einnig áhuga á framherjanum og möguleiki að fleiri félög séu að horfa til leikmannsins stæðilega.

Óskar Hrafn hefur náð í marga leikmenn, alls tólf, frá komu sinni í sumar en einungis einn eiginlegan framherja. Markakóngurinn Benoný Breki Andrésson fer líklega út í atvinnumennsku í vetur. KR sótti Jakob Gunnar Sigurðsson, markakóng 2. deildar, en fyrir utan hann er breiddin í fremstu stöðu ekki sérstaklega mikil.

KR hefur þá misst Theodór Elmar Bjarnason úr leikmannahópnum, hann er tekinn við sem aðstoðarþjálfari liðsins. Ægir Jarl Jónasson fór þá um mitt mót líkt og þeir Kristján Flóki Finnbogason og Aron Kristófer Lárusson. Atli Sigurjónsson og Guy Smit eru að verða samningslausir og spurning hvort þeir verði áfram.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner