Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fös 02. ágúst 2024 16:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Af hverju er Óskar að reyna fá uppöldu KR-ingana heim?
Óskar Hrafn er yfirmaður fótboltamála hjá KR og verðandi aðalþjálfari.
Óskar Hrafn er yfirmaður fótboltamála hjá KR og verðandi aðalþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net fjallaði um það í síðustu viku að stefnan hjá KR væri að fá uppalda leikmenn heim i félagið.

Leikmenn eins og Ástbjörn Þórðarson, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, Hjalti Sigurðsson, Óliver Dagur Thorlacius, Atli Hrafn Andrason, Guðmundur Andri Tryggvason og Gabríel Hrannar Eyjólfsson hafa verið orðaðir við heimkomu í Vesturbæinn.

Leiknir staðfesti svo á samfélagsmiðlum sínum í gær að Hjalti væri að ganga í raðir KR eftir tímabilið.

Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson í dag. Óskar er yfirmaður fótboltamála hjá KR og verðandi aðalþjálfari liðsins.

Hver er hugsunin á bakvið það að fá uppalda KR-inga heim? Er betra að fá þá en aðra?

„Það þarf ekkert endilega að vera betra, það er bara öðruvísi. Það er öðruvísi að vera með uppalda KR-inga heldur en aðkomna KR-inga. Mín hugsun hefur alltaf verið sú að það þurfi að vera ákveðinn kjarni af leikmönnum, sem eru uppaldir í því félagi sem þeir eru að spila í, til þess að það náist ákveðinn kúltúr og að skilningurinn fyrir hvað KR stendur varðveitist innan leikmannahópsins. Eina leiðin til þess að varðveita skilninginn er með því að vera með menn sem hafa alist upp á KR svæðinu. Sama gildir um þjálfarahópinn í yngri flokkum. Það er líklegra að kúltúrinn verði eins og KR-ingar vilja hafa hann ef það eru fleiri uppaldir í kringum starfið."

„Á bakvið alla þessa uppöldu KR-inga er risastór kjarni af KR-ingum. Þannig ég yrði hissa ef stuðningsmenn, almennan KR-ing og almennan Vesturbæing, yrði ekki sterkari ef að fleiri uppaldir leikmenn spila hlutverk í félaginu."


KR heimsækir Kórinn á fimmtudag. Býst Óskar við því að það verði kominn einhver nýr leikmaður í KR fyrir þann leik?

„Það er erfitt að segja til um það. Menn eru að vinna nótt við nýtan dag að finna leikmenn. Það þarf líka að passa upp á að fara ekki í einhverjar björgunaraðgerðir til skamms tíma sem kannski binda félagið til lengri tíma. Það þarf að fá inn leikmenn sem nýtast okkur á næstu árum."

„Hópurinn er mjög þunnur og það vantar leikmenn. En hvort að þeir verði kominn fyrir leikinn gegn HK veit ég ekki. Ég hef ekki stjórn á því og því er erfitt að lofa því, en við munum allavega gera okkar allra besta til þess að verða búnir að styrkja liðið fyrir þann leik,"
segir Óskar.
Athugasemdir
banner
banner
banner