Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   mán 03. maí 2021 09:50
Fótbolti.net
Bestur í 1. umferð - Stríðsmaðurinn var bestur í heimi í þessum leik
Sölvi Geir Ottesen (Víkingur)
Sölvi Geir Ottesen, varnarmaður Víkinga.
Sölvi Geir Ottesen, varnarmaður Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur byrjar nýtt tímabil með sigri en liðið vann nýliða Keflavíkur á heimavelli hamingjunnar 1-0 í gærkvöldi. Sigurmarkið skoraði hinn 37 ára fyrirliði Sölvi Geir Ottesen sem var svo valinn maður leiksins.

Sjá einnig:
Úrvalslið 1. umferðar Pepsi Max-deildarinnar

„Fyrir mánuði síðan sá ég ekki fyrir mér að Sölvi myndi spila mikið í sumar. Ét glaður sokk ef hann ætlar að vera jafn kraftmikill í sumar og hann var í kvöld. Gæti reynst Víkingum afar dýrmætur," skrifaði Sverrir Örn Einarsson, fréttaritari Fótbolta.net, á leiknum.

Í viðtali í mars sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, að hlutverk Sölva innan liðsins hefði breyst. Sölvi hefur verið að glíma við meiðsli og fór í aðgerð í fyrra. Vangaveltur voru í gangi um hvort hann myndi leggja skóna á hilluna.

„Ef við fáum eitthvað út úr honum í sumar er það bara góður bónus. Vonir standa til að hann verði til taks allavega þegar við þurfum á honum að halda," sagði Arnar í mars.

Víkingar þurftu strax á Sölva að halda í fyrstu umferð en Kári Árnason byrjar tímabilið á meiðslalistanum. Sölvi svaraði kallinu, lék sinn fyrsta heila fótboltaleik á árinu, og frammistaða hans gerir það að verkum að hann er valinn leikmaður umferðarinnar.

„Sölvi hefur það aldrei gott í skrokknum það er nokkuð ljóst. Hann er alltaf að drepast fyrir leiki, á meðan á leik stendur og eftir leiki. En eins og ég hef oft sagt hann er bara stríðsmaður. Kári meiðist og hann þurfti bara að gjöra svo vel að bryðja nokkrar töflur og standa sína plikt sem hann gerði bara eins og sannur stríðsmaður," sagði Arnar Gunnlaugsson í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.

Rætt var um frammistöðu Sölva í hlaðvarpsþættinum Innkastið en Tómas Þór Þórðarson var á leiknum.

„Það var mögulega búið að setja stærsta spurningamerkið við hann af öllum fyrir mót. Það var búið að setja hann í nýtt hlutverk og hann átti að vera leikmaður sem kæmi inn endrum og eins. Sölvi Geir Ottesen var bara bestur í heimi í þessum leik. Keflvíkingar áttu ekki 'breik' gegn Sölva, hann var algjörlega frábær," sagði Tómas í Innkastinu.

Sjá einnig:
Sölvi: Spurningin um að tímasetja þetta rétt
Innkastið - Nýr leikur en sömu úrslit þegar Rúnar mætir Óskari
Athugasemdir
banner
banner