Southampton
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 14. sæti er Southampton.
Um liðið: Það gleymist að Southampton var á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir átta leiki á síðustu leiktíð. Það fjör entist ekki lengi og hrundi leikur liðsins að mörgu leyti eftir að knattspyrnustjórinn Ralph Hasenhuttl missti sig aðeins í gleðinni í kjölfarið á sigri gegn Liverpool. Það hafa ekki orðið miklar mannabreytingar og verður fróðlegt að sjá hvort þessi leiktíð verði eins mikil rússíbanareið og sú síðasta.
Stjórinn: Ralph Hasenhuttl hefur stýrt Dýrlingunum frá því í desember 2018. Þetta er ástríðufullur Austurríkismaður sem vill spila pressubolta. Sumt fólk hélt að hann myndi fá að taka pokann sinn eftir 9-0 tap gegn Leicester 2019 en það gerðist ekki og náði hann að rífa liðið upp eftir það vonda tap. Undir hans stjórn hefur liðið endaði í 16. sæti, 11. sæti og 15. sæti. Hvað gerist núna?
Staða á síðasta tímabili: 15. sæti
Styrkleikar: Liðið spilar oft á tíðum skemmtilegan fótbolta sem snýst mikið um pressu. Leikmenn - undir handleiðslu Hasenhuttl - eru í góðu formi. Það eru þarna leikmenn sem hafa spilað í nokkur ár saman og þekkja vel inn á hvorn annan. Danny Ings og James Ward-Prowse eru frábærir leikmenn sem gætu komist í mörg önnur lið í deildinni.
Veikleikar: Breiddin er svo sannarlega ekki sú mesta. Það sýndi sig í fyrra að stöðugleikann vantar. Í síðustu 25 leikjum síðasta tímabils voru Dýrlingarnir slakasta lið deildarinnar. Hvernig koma þeir inn í þetta tímabil eftir þær hörmungar? Danny Ings er alltaf meiddur sem eru svo sannarlega ekki góð tíðindi fyrir Southampton. Hann þarf að haldast heill! Það er líka ekki gott fyrir Dýrlingana að Ings vill fara frá félaginu.
Talan: 1
Southampton vann einn af síðustu 12 útileikjum sínum á síðasta tímabili. Þar af töpuðu þeir tíu af þessum 12 leikjum. Það er hörmulegt.
Lykilmaður: James Ward-Prowse
Fyrirliði liðsins, leiðtogi inn á miðsvæðinu. Aston Villa er að reyna að kaupa hann en Southampton ætlar sér ekki að selja hann. Frábær spyrnumaður og það er mikilvægt að hafa þannig leikmann í sínum röðum.
Fylgist með: Mohammed Salisu
Miðvörður sem var keyptur fyrir síðustu leiktíð. Náði ekki alveg að sýna sínar bestu hliðar en nær vonandi að gera betur á komandi leiktíð. Það er mikið spunnið í þennan strák.
Komnir:
Theo Walcott frá Everton - Frítt
Romain Perraud frá Brest - 10,3 milljónir punda
Farnir:
Josh Sims - Án félags
Jake Hesketh - Án félags
Wesley Hoedt til Anderlecht - Óuppgefið
Kayne Ramsay til Crewe - Á láni
Angus Gunn til Norwich - 5 milljónir punda
Jake Vokins til Ross County - Á láni
Alexandre Jankewitz til Young Boys - Óuppgefið
Dan N'Lundulu til Lincoln - Á láni
Ryan Bertrand til Leicester - Frítt
Mario Lemina til Nice - 4,7 milljónir punda
Callum Slattery til Motherwell - Óuppgefið
Fyrstu leikir:
14. ágúst, Everton - Southampton
22. ágúst, Southampton - Man Utd
28. ágúst, Newcastle - Southampton
Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12.
13.
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir