Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 03. október 2023 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áhugi erlendis á Benoný Breka - „Ég er ekki að fara í hvað sem er"
Benoný Breki Andrésson.
Benoný Breki Andrésson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Benoný Breki Andrésson, sóknarmaður KR, er undir smásjá erlendra félaga eftir að hafa spilað afar vel að undanförnu.

Þessi 18 ára gamli leikmaður gekk í raðir KR frá Bologna á Ítalíu fyrir tímabilið. Hann er búinn að skora níu mörk í Bestu deildinni fyrir KR í sumar en hann gerði tvö mörk og lagði upp eitt í mögnuðum 4-3 sigri gegn Breiðabliki síðasta sunnudag.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru félög erlendis að skoða hann og hann hefur sjálfur heyrt af áhuga.

„Ég ætla að byrja á því að klára tímabilið með KR og er einbeiting mín á því," sagði Benoný í samtali við Fótbolta.net. „Ég ætla að leyfa umboðsmanninum að sjá um þetta."

Veit hann til þess að það eru komin tilboð?

„Ég veit ekki með tilboð, það er einhver áhugi sem ég þarf að skoða betur eftir tímabilið."

Það er mikilvægt að taka rétta skrefið. „Ég er ekki að fara í hvað sem er, þó svo að þetta sé atvinnumennska. Ég þarf að taka rétta skrefið upp á ferilinn að gera."

Draumur að spila með KR
Benoný er uppalinn í Gróttu og spilaði með Breiðabliki í yngri flokkunum líka, en hann segir það draum að spila fyrir Vesturbæjarstórveldið.

„Ég er alinn upp sem KR-ingur, pabbi og fjölskylda mín eru miklir KR-ingar. Það var draumur að rætast að spila fyrir KR," segir Benoný en hann er með sterka tengingu fyrir félagið.

„Ég var á öllum leikjum þegar ég var yngri. Að skora á Meistaravöllum er geggjuð tilfinning."
Sterkastur í 26. umferð - Þetta var skrifað í skýin
Athugasemdir
banner
banner
banner