Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
banner
   mán 04. mars 2013 16:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Hver er þessi Raphael Varane?
Gæti orðið besti miðvörður heims
Raphael Varane er stútfullur af hæfileikum, aðeins nítján ára gamall.
Raphael Varane er stútfullur af hæfileikum, aðeins nítján ára gamall.
Mynd: Getty Images
Varane og Robin van Persie.
Varane og Robin van Persie.
Mynd: Getty Images
Franski varnarmaðurinn Raphael Varane verður tvítugur í næsta mánuði. Þessi ungi leikmaður hefur skotist upp á stjörnuhimininn eftir frábærar frammistöður í stórleikjum með Real Madrid.

Hann var valinn maður leiksins í 1-1 jafntefli við Barcelona í bikarnum þar sem hann skoraði með skalla. Í seinni leiknum skoraði hann aftur en Real vann þá 3-1 sigur.

Þegar Varane lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Real Madrid sagði aðstoðarþjálfarinn Aitor Karanka að frammistaða hans hafi verið fullkomin. Einum mánuði síðar hefur Varane sannað að þetta var engin byrjendaheppni og það kemur á óvart ef hann byrjar ekki seinni leikinn gegn Manchester United á morgun.

Kominn lengra en búist var við
Varane fæddist í Lille 25. apríl 1993 en var keyptur til Real Madrid frá Lens á 9 milljónir punda sumarið 2011. Zinedine Zidane gaf leikmanninum meðmæli sín og sagði við forseta Real, Florentino Perez, að hann væri besti miðvörður Frakklands síðan Laurent Blanc var upp á sitt besta.

„Ég sagði við hann í upphafi tímabils að ég teldi að hann gæti orðið einn besti miðvörður heims eftir nokkur ár," sagði Pepe liðsfélagi hans og Alvaro Arbeloa bætti við: „Enginn okkar bjóst við að hann myndi ná þetta langt á svona skömmum tíma."

Í byrjun tímabils var Varane fimmti kostur í miðvarðastöðu Real Madrid (eftir Sergio Ramos, Pepe, Raúl Albiol og Ricardo Carvalho). Í september hafði hann ekkert spilað og var óttast að hann fengi ekki tækifæri til að sýna sig og sanna. En þegar tækifærið kom loksins var ljóst að hann var tilbúinn.

Stóð sig vel gegn Messi
Hann nýtti tækifærið þegar Pepe og Ramos vantaði og hefur fengið að spila tvívegis gegn Barcelona og einu sinni gegn Manchester United. Leikurinn í lok janúar var hans fyrsti gegn Barcelona. Í leiknum bjargaði hann á línu, varðist vel gegn Lionel Messi og skoraði með skalla. Hann skoraði svo einnig í seinni leiknum. Tveir El Clasico leikir, tvö mörk, ekki eitt brot.

Tímasetningar hans á tæklingum hafa verið frábærar og hann er með um 80% sendinga heppnaðar. Hann er 1,91 m á hæð, hávaxinn og kraftmikill. Hann er þó ekki þessi hefðbundni baráttuglaði miðvörður sem kastar sér í allt heldur leikur hann af skynsemi.

Varane hefur tekið mikilum framförum með því að æfa með leikmönnum í fremstu röð. Það hefur einnig hjálpað honum að hann hefur lært spænsku fljótt og því aðlagast á skömmum tíma. Þetta er leikmaður sem á vafalítið eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni.

Mourinho er mér sem faðir
Varane segir að Jose Mourinho, þjálfari Real, eigi mikinn þátt í velgengni sinni.

„Jose Mourinho er eins og annar faðir í mínum augum. Hvað fótboltahliðina varðar hefur hann hjálpað mér mikið. Hann sýnir stuðning og hefur trú á mér. Hann finnur réttu orðin sem fær mann til að taka framförum. Við tölum oft saman. Hann er mjög náinn sínum leikmönnum," segir Varane.

„Ég er sama persóna og ég var á síðasta tímabili. Ég er að spila meiraen á síðasta tímabili en þú þarft að sýna það á vellinum hvað þú getur."
Athugasemdir
banner
banner