Mikael Nikulássyni var í dag vikið úr starfi sem þjálfari meistaraflokks Njarðvíkur eftir eitt tímabil sem þjálfari liðsins. Njarðvík endaði í 4. sæti 2. deildar í sumar með tólf sigra úr 20 leikjum. Mikael ræddi við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football í kvöld um brottreksturinn.
Hjörvar spurði Mikael hvort þetta hefði komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. „Já, meira segja eins og það hefði verið heiðskýrt í þrjá daga. Það var ekki verið að ræða um áframhald, það var bara áframhald og ég held að eini maðurinn sem var virkilega ósáttur að hafa ekki farið upp úr deildinni var ég. Flestir sem stóðu á bakvið þessa ákvörðun voru sáttir við að taka annað tímabil í 2. deild, byggja upp lið og það var lítið að gerast þegar ég kom fyrir tímabilið," sagði Mikki.
„Það er búið að vinna í leikmannamálum, búið að endursemja, með pressu frá mér, við leikmenn sem stóðu sig vel í sumar. Það er búið að vera vinna í nýjum leikmönnum. Það var allt í góðu nema að við fórum ekki upp sem ég var ósáttur með en enginn annar. Það er vægt til orða tekið að þetta sé þruma úr heiðskýru lofti."
Hjörvar kemur inn á það að Mikael hafi unnið 60% leikjanna í sumar. Var það að fá símtalið í dag eins og að fá hníf í bakið?
„Já þetta er bara hnífsstunga, það er ekkert flóknara en það - því miður. Ég tala hreint út að ef árangurinn hefði ekki verið nægilega góður að þá hefði ég verið fyrsti maður til að stíga til hliðar eða skilið það 100% ef formaðurinn hefði látið mig fara en það var ekki þannig," segir Mikki. Mikael og Gylfi Þór Gylfason, formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur, eru góðir vinir og segir Mikki það ekki hafa verið ákvörðun Gylfa að skipta út þjálfaranum.
„Við fórum ekki upp, sigurhlutfallið fínt og allt í toppstandi. Það var ekki allt í toppstandi hjá liðinu þegar ég tók við. Það var nýfallið með fimmtán eða sextán stig úr 1. deild. Margir leikmenn farnir, margir leikmenn á samningi að æfa með öðrum liðum þar sem þeir fengu samþykki við því. Ég náði einhverjum af þeim til baka nokkrum mánuðum seinna en sumum náði ég ekki. Það þurfti að búa til nýtt lið og það vita það allir sem fylgdust með að Njarðvík var að reyna spila skemmtilegan fótbolta og Njarðvík var með gott lið sem mun gera góða hluti næsta sumar held ég. Ég átti held ég stóran þátt í því ásamt öllu öðru sem var ekki í lagi þegr ég tók við og er í lagi í dag," sagði Mikki.
Nálgast má Dr. Football þáttinn hér.
Athugasemdir