„Tilfinningin er góð, það er mikill heiður fyrir mig að vinna þetta mót. Ég stofnaði mótið og er núna að vinna það í annað skiptið á þremur árum. Það er mjög gaman að vinna úrslitaleik og strákarnir áttu þetta skilið," sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 2-1 sigur á Selfossi í úrslitaleik B-deildar Fótbolta.net mótsins.
Leikið var í Kórnum í dag og mun fyrri hálfleikurinn ekki fara í sögubækurnar fyrir mikla skemmtun. Það rættist aðeins úr leiknum í seinni hálfleik og þrjú mörk litu dagsins ljós.
„Við gáfumst aðeins of mikið eftir að við komumst í 2-0 en fram að því þá fannst mér við klárlega vera betri aðilinn og verðskulda þessi mörk. Ég er ánægður með strákana, flott spil á köflum og varnarlega vorum við mjög flottir."
Maggi þekkir ágætlega til hjá Fótbolta.net, byrjaði að taka viðtöl mjög ungur og var í nítján ár starfandi í kringum síðuna. Hann hætti í júní í fyrra og var spurður hvort hann saknaði þess að skrifa fréttir.
„Nei, ótrúlega lítið. Ég hélt það yrði meira en eftir nítján var kannski komið fínt að geta prófað eitthvað annað. Örugglega á einhverjum tímapunkti saknar maður þess aðeins en furðu lítið. Ég er fínn á meðan ég fæ mína fótboltaútrás annars staðar, þá er ég góður," sagði Maggi.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Í viðtalinu ræðir hann einnig um starfið hjá Aftureldingu, leikmannahópinn og innkomu Sigga Bond inn í liðið.
Athugasemdir