Í kvöld hefst 2. deild karla en lið Hattar/Hugins, sem spáð er sjötta sæti, fer í heimsókn til Völsungs.
Höttur/Huginn er með einn athyglisverðasta leikmann deildarinnar í sínum röðum, miðjumanninn Dani Ndi.
Þessi 27 ára gamli miðjumaður á ansi áhugaverðan feril að baki en hann á til að mynda leiki með Sporting Gijon í spænsku úrvalsdeildinni.
Þá hefur hann einnig spilað með Mallorca og Istra í Króatíu en hann hefur síðustu ár verið að leika í neðri deildunum á Spáni. Hann á fimm A-landsleiki að baki fyrir Kamerún en það gerist ekki á hverjum degi að leikmaður með svona feril komi til Íslands, hvað þá í 2. deild.
Hann kemur til landsins í gegnum umboðsmanninn Nacho Poveda sem spilaði með Hetti/Hugin sumarið 2021. Rætt var um Ndi í Ástríðunni í gær.
„Þetta er leikmaður sem var að spila í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga. Þú getur farið á Youtube og séð þennan gæja vera að 'dribbla' boltanum fram hjá leikmönnum Real Madrid í La Liga. Hann kemur inn á og er bara hlæjandi að Casemiro, Sergio Ramos og eitthvað," sagði Gylfi Tryggvason í Ástríðunni.
„Þetta er bara þvæla. Hann er kominn í Hött/Hugin og á A-landsleiki fyrir Kamerún," sagði Sverrir Mar Smárason.
„Þettta er veikasta 'transfer' í sögu neðri deilda. Þetta er mesta bull í sögu neðri deilda... Eru þetta stærstu félagaskipti á Íslandi?" spurði Gylfi en það má líklega færa rök fyrir því að Lee Sharpe í Grindavík hafi verið stærra og auðvitað David James í ÍBV ásamt því að Danny Guthrie og Nigel Quashie komu hingað að spila í Lengjudeildinni. Þetta eru þó líklega stærstu félagaskipti í sögu Ástríðudeildanna, það er að segja fyrir neðan Lengjudeildina.
„Hann er búinn að vera meiddur. Menn fara ekki úr La Liga í 2. deild á Íslandi sjálfviljugir. Þetta er ekki það sem honum dreymdi um. Ég er ekkert eðlilega spenntur að sjá þennan gæja spila fótbolta. Ég er búinn að panta mér ellefu flug til Egilsstaða og ég ætla að sjá alla heimaleikina þeirra," sagði Gylfi léttur en hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir