Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   mið 05. ágúst 2015 09:30
Elvar Geir Magnússon
Bjössi Hreiðars: Gæti orðið brekka ef við töpum
FH - Valur í kvöld
Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Jóhannesson.
Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er frábært að fá leik aftur eftir vikupásu. Það verður æðislegt að heimsækja gott lið FH á þeirra frábæra heimavöll. Alvöru leikur sem við erum að fá," segir Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals fyrir stórleikinn gegn FH á Kaplakrikavelli í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 en í kvöld fer öll 14. umferð deildarinnar fram. FH sem trónir á toppi deildarinnar getur með sigri komist sex stigum á undan Val og minnkað titilvonir Hlíðarendafélagsins talsvert.

„Það gæti orðið helvíti erfitt að eiga við það að missa þá sex stigum á undan okkur, núna þegar við erum aðeins komnir inn í seinni umferðina. Það gæti orðið brekka en við ætlum ekki að fara í Krikann og tapa þessum leik. Það kemur ekki til greina."

Valur vann 2-0 sigur gegn FH í fyrstu umferðinni þar sem Sigurður Egill Lárusson skoraði bæði mörkin.

„Við verðum að eiga algjöran toppleik til að við náum að endurtaka leikinn, allir þurfa að eiga sinn besta leik. Það er algjörlega á hreinu. Það er krafa í Hafnarfirði að vera í efsta sæti. Evrópuævintýrið er búið og liðið ekki lengur í bikarnum. FH-samfélagið í heild sinni gerir kröfu á að taka bikar og við þurfum að eiga okkar allra besta leik," segir Sigurbjörn.

Valsmenn hafa verið að gera góða hluti í sumar og eru komnir í bikarúrslitin ásamt því að vera í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Síðasti deildarleikur, heimaleikur gegn Víkingi, tapaðist þó.

„Sjálfstraustið er mikið og það hefur myndast góð liðsheild eins og við ætluðum að gera. Við erum komnir ágætlega á veg með það en betur má ef duga skal. Við erum núna búnir að vera að spila 2-3 leiki þar sem við vitum að við getum betur. Við eigum smá inni frá því," segir Sigurbjörn sem segir engin meiðsli hjá Val. „Það eru allir klárir í bátana."

miðvikudagur 5. ágúst
18:00 ÍBV-Fylkir (Hásteinsvöllur)
19:15 Víkingur R.-ÍA (Víkingsvöllur)
19:15 FH-Valur (Kaplakrikavöllur)
19:15 Leiknir R.-Stjarnan (Leiknisvöllur)
19:15 Fjölnir-KR (Fjölnisvöllur)
19:15 Breiðablik-Keflavík (Kópavogsvöllur)

Allir leikir verða í beinum textalýsingum hjá okkur.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner