
„Okkur er búið að ganga svo vel að ég er búinn að taka víkingaklappið í næstum því hverjum einasta leik. Það er skylda að gera það," sagði Jón Daði Böðvarsson framherji Íslands og Wolves en víkingaklappið er gríðarlega vinsælt hjá stuðiningsmönnum Wolves sem Jón Daði gekk til liðs við í sumar.
„Með fullri virðingu fyrir Víkingaklappinu þá var þetta orðið smá þreytt enda út um allt. Svo var ég að spila minn fyrsta leik með Wolves og heyrði áhorfendur alltaf klappa inn á milli. Ég spurði sjálfan mig hvort ég hafi átt að taka klappið en hætti við það. Þá kom Walter (Zenga þjálfari) og skipaði mér að gera það. Eftir það hef ég alltaf gert þetta eftir leiki og það er bara gaman að því."
Jón Daði hefur verið að gera frábæra hluti með Wolves síðan hann gekk til liðs við félagið í sumar en bjóst hann við þessu?
„Þetta er framar vonum. Það er alltaf erfitt og ákveðin pressa á manni, sérstaklega þegar maður er framherji, að byrja mjög vel frá byrjun. Að skora í fyrsta leik gefur manni mikið sjálfstraust og góða hluti inn í komandi tímabil. Þetta er frábær byrjun og nýtt umhverfi sem mér líður mjög vel í. Ég finn að ég passa vel í boltann þarna og liðið og það er frábært," sagði hann.
Hann var áður hjá Kaiserslautern í Þýskalandi en er það mjög frábrugðið?
„Já, aðeins öðruvísi og þá aðallega fótboltinn. Á Englandi er hann meira direct og physical en í Þýskalandi aðeins meira possesion spil og halda niðri boltanum. Engu að síður er það mjög góð deild líka en ég finn mig betur í boltanum á Englandi og Championship deildin er fullkomin deild og æðislegt að vera þarna. Það er líka æðislegt að byrja svona vel og svo kemur víkingaklappið inní. Þá nær maður að fá stuðningsmenn með sér á vagninn og það er æðislegt að fá svona aukinn stuðning."
Jón Daði hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu og byrjaði alla leiki á Evrópumótinu.
„Þetta ár er búið að vera fáránlegt og allt búið að ganga vel hjá mér. Ég man ekki eftir erfiðum stundum á þessu ári og allt búið að ganga frábærlega vel. Ég er að finna mig vel í fótboltanum, er í toppformi og sjálfstraustið er hátt uppi. Vonandi næ ég að halda því áfram."
Athugasemdir