Brentford er búið að krækja í Valgeir Valgeirsson á lánssamningi frá HK sem gildir út tímabilið.
Brentford tapaði úrslitaleik umspils Championship deildarinnar í fyrra og mun Valgeir spila fyrir B-lið félagsins, líkt og Patrik Sigurður Gunnarsson hefur gert undanfarin ár. Patrik er í dag markvörður Viborg í Danmörku, að láni frá Brentford.
Brentford er með kauprétt á Valgeiri á næsta ári. Valgeir, sem er 18 ára, getur bæði spilað sem hægri bakvörður og kantur og er hann lykilmaður í liði HK.
„Ég er mjög ánægður að bæta gæðaleikmanni við hópinn, þetta er strákur sem hefur verið að spila fullorðinsbolta í einhvern tíma. Valgeir verður frábær viðbót við liðið þökk sé reynslunni sem hann hefur safnað," sagði Neil MacFarlane aðalþjálfari varaliðs Brentford.
„Ég tel mikið vera spunnið í Valgeir, við höfum séð hann eiga virkilega flottar rispur. Hann er leikmaður sem gefur allt fyrir liðið og mun smellpassa í þennan leikmannahóp."
Athugasemdir