lau 05. desember 2020 16:47
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Leikmenn Íslands vilja Lagerback aftur
Lars Lagerback.
Lars Lagerback.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það hvíslaði því að mér lítill fugl að Lagerback væri alveg fáanlegur í viðræður. Hann væri alveg tilbúinn að hlusta," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolti.net í dag en þar var rætt um leitina að landsliðsþjálfara karla.

Lagerback var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Noregs í vikunni og Tómas Þór Þórðarson segir að samkvæmt sínum heimildum sé það vilji lykilmanna íslenska landsliðsins að fá þann sænska aftur.

„Ég heyrði í gær að þeir væru búnir að koma skilaboðum úr hæstu hæðum landsliðsins inn á borð KSÍ um að vinsamlegast hringja í manninn eins og skot. Miðað við sem ég heyri þá vilja leikmennirnir fá hann aftur," segir Tómas.

Hann veltir því fyrir sér hvort teymi með Lars Lagerback og Frey Alexanderssyni gæti verið málið. „Lalli og Freysi? Leikmenn vilja líka halda Freysa."

Samkvæmt skoðanakönnun Fótbolta.net telja 60% af lesendum síðunnar að Lagerback ætti að vera fyrsti kostur hjá KSÍ í starfið. Elvar veltir því fyrir sér hvort orðspor Lagerback sem er gríðarlega vinsæll hér á landi gæti laskast með endurkomu.

„Heldur þú að hann hugsi svona? Hann hefur verið í bransanum í 50 ár. Hann hefur ekkert að sanna. Honum leið vel hérna og við vorum eins og klappstýrur í kringum hann," segir Tómas.

Veit ekki hversu mikið Heimir á eftir í Katar
Í umræðunni í útvarpsþættinum í dag var einnig talað um önnur nöfn sem hafa borið á góma. Tómas nefndi annan fyrrum landsliðsþjálfara, Heimi Hallgrímsson.

„Ég veit ekki hversu mikið Heimir á eftir þarna úti. Það gengur mjög illa," segir Tómas en nýtt tímabil Al Arabi í Katar fer illa af stað.

Tómas telur að Lagerback sé líklegastur í starfið í dag en Elvar telur að Arnar Þór Viðarsson sé enn líklegastur.

„Miðað við aldur og fyrri störf held ég að það séu meiri líkur á að við náum árangri undir Lars Lagerback en Arnars. Þá er ég ekki að lasta Arnar heldur lofa Lars Lagerback. Lars er dýrari en Arnar en ef við ætlum að bjarga fjárhag íslenska boltans á einu bretti þá þurfum við að koma okkur á stórmót," segir Tómas og Elvar bætir við:

„Arnar er með geggjaðar pælingar, fljótur að vinna sig upp metorðastigann hjá KSÍ og búinn að koma U21 á EM. Ef hann yrði ráðinn þyrfti samt Guðni að útskýra það af hverju maður með ekki stærra CV tæki allt í einu við íslenska landsliðinu núna."
Landsliðsumræða - Trúnaðarbrestur og þjálfaraleit
Athugasemdir
banner
banner
banner