Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   sun 05. desember 2021 09:30
Brynjar Ingi Erluson
„Ég er ekkert í stöðu til að velja mér stað til að vera á"
Jón Daði Böðvarsson
Jón Daði Böðvarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson fór yfir tíma sinn í Millwall í útvarpsþættinum Fótbolti.net með þeim Elvari Geir Magnússyni og Tómasi Þór Þórðarsyni í gær en hann vonast til að losa sig frá félaginu í janúar.

Þetta tímabil hefur verið martröð fyrir Jón Daða en hann fékk að vita það þegar undirbúningstímabilið væri hálfnað að félagið ætlaði sér ekki að nota hann á tímabilinu.

„Það er ekkert flókið. Ég er ekki búinn að vera í hóp þetta seasonið eða yfir höfuð og er ekkert nálægt því að vera inn í myndinni og það er eitthvað sem ég fékk að vita þegar undirbúningstímabilið var hálfnað," sagði Jón Daði.

Hann reyndi að komast frá félaginu í sumar en það gekk ekki eftir og þó það hafi verið áhugi frá liði í ensku C-deildinni þá var aðeins lánssamningur í boði og það vildi hann ekki.

„Ég er búinn að reyna að koma mér í burtu, í nýjan klúbb. Það gekk ekki í síðasta glugga. Maður er viðloðinn aðalliðið og æfa á fullu en maður er ekki að spila leiki og þetta er mjög skrítið og hundleiðinleg staða til að vera í. Þetta er eins og að vera atvinnulaus í atvinnu."

Tímabilið búið að reyna á andlega

Jón Daði er mikill vinnuþjarkur og leggur sig allan fram. Það þekkja alir landsmenn eftir að hafa séð hann í landsliðstreyjunni en hann segir það mikla áskorun að halda sér við efnið þegar hann veit að hann getur ekki spilað sig inn í lið Millwall.

„Já, þetta er ógeðslega erfitt og sennilega mitt erfiðasta tímabil á mínum ferli og andlega. Maður er að vinna mjög hart að sér og sama hversu vel maður gerir þá skiptir það engu máli og þegar þetta er í svona á löngum kafla er það erfitt að halda í gleðina drifkraftinn. Þetta er áskorun en maður verður að vera klár og vona að eitthvað gerist í janúar."

„Það er mikilvægast að horfa á bara „eyes on the prize" og hvað þú getur stjórnað. Það sem ég get stjórnað er að vera í mínu besta formi sem ég get mögulega verið og næsta skref. Það eru dagar þar sem það er drulluerfitt eðlilega. Maður er búinn að reyna að gera sem besta úr því og heldur áfram."

„Það var ekkert voðalega mikið nálægt. Það var aðeins á Englandi í League One en ég fann ekki fyrir því að það væri eitthvað mikið traust þar. Það var lán og ég vil það ekki, helst lengur og frá Millwall. Það þarf að passa upp á fjölskyldu sína þannig staðurinn sé góður."


Jón Daði horfir á janúargluggann til að komast burt frá Millwall en hann segist opinn fyrir öllu.

„Mig langar að prufa eitthvað nýtt. Ég er búinn að vera sex ára á Englandi og finn að ég þarf eitthvað annað og öðruvísi. Ég er opinn fyrir öllu, einhverstaðar í Evrópu utan England. Þýskaland væri spennandi ef það er í boði og Skandinavía ef það poppar eitthvað upp þar. Ég er ekkert í stöðu til að velja mér stað til að vera á og það þarf að koma í ljós hvar áhuginn verður."

„Staðan er ekkert ákjósanleg. Liðin horfa á ef þú ert að spila leiki og þá verður þetta erfiðara en venjulega. Það er ekki mikið eins og er en það ætti að gerast þegar mánuðurinn er hálfnaður þá verða þreyfingar almenninlega og lið að skoða fyrir janúargluggann."

„Umboðsmaður minn heyrir bara í mér ef það er eitthvað líklegt og hann er ekkert að koma með eitthvað ef sögurnar eru ekki sannar eða 100 prósent."


Þar sem hann er ekki að spila þá hefur hann ekki gert tilkall í íslenska landsliðshópinn. Það er það sem reynir hvað mest á, er að vera ekki í hópnum.

„Jú, þetta er búið að vera ógeðslega challenging tími. Þetta er ákveðin rútína og viðráðinn landsliðið í mörg ár. Ég man alveg þegar hópurinn var tilkynntur þegar ég var í fyrsta sinn ekki í hóp í öll þessi ár og eðlilega var það sjokk."

„Það er skiljanlegt og sýnir því virðingu og reynir að koma sér á góðan stað í janúar og spila vel og koma sér aftur í þennan hóp."


Á þrjú eða fjögur góð ár eftir í atvinnumennsku

Það var orðrómur um það að Jón Daði gæti snúð aftur heim til Íslands og spilaði með Íslands- og bikarmeisturum Víkings en það er ekki á dagskránni eins og er.

„Ég þarf því miður að valda þér vonbrigðum með Víking Reykjavík um daginn og veit ekki hvaðan það kom. Ég tel að ég eigi aðeins meiri tíma eftir í mér erlendis áður en ég kem heim. Vonandi þrjú til fjögur ár."

„Ég finn að ég eigi helling inn í mér eftir og maður vill enda atvinnumennskuna á góðum nótum áður en maður kemur heim."

„Ég finn að ég er í fínasta formi og ekkert meiðslavesen sem ég hef lent í veseni í hitt í fyrra. Ég er búinn að haldast mjög heill og ekkert yfir því að kvarta. Það er aðallega þegar maður spilar ekki fótboltaleiki í langan tíma, það er allt annað en æfingar og reynir að vera duglegri. Fer oftar í gymmið eftir æfingar og aukaprósentur þannig maður sé eins klár og maður mögulega getur í næsta skref."


Tómas spurði framherjann út í það hvort það væri erfitt að selja liðum hugmyndina að fá hann þar hann hefur ekki verið iðinn við það að skora mikið af mörkum en hann vonar þó að umboðsmaðurinn finni félag sem þekki hans styrkleika.

„Það skiptir máli sem framherji að skora mörk. Það vita það allir og viðurkenni það að sérstaklega með landsliðinu þá hefur það ekki verið neitt frábær statistík og líka með Millwall hefur það verið frekar dapurt. Maður hefur fengið fá tækifæri á tíma sínum hjá Millwall og því erfiðara en ég er kannski ekki þessi perfect framherji. Ég á að skora mörk og er aldrei sáttur að skora ekki mörk en ég tel mig vera með meira en það í leik mínum eða ég vona það."

„Vonandi er hann að finna lið sem veit hvernig leikmaður ég er en statístikin skilgreinir mig ekki sem leikmann. Ég vona að næsti klúbbur sem ég fer í viti hvernig ég er og hvað ég hef fram að bjóða en eðlilega er það erfiðara. Lið horfa á framherja sem er að skora mörk og það hefur ekki verið málið með mig síðustu misseri."

Útvarpsþátturinn - Ferðalag til Englands, Jón Daði og Víkingar
Athugasemdir
banner
banner