Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 06. maí 2022 11:20
Elvar Geir Magnússon
„Aron og Patrick hafa ekki verið að tengja vel saman"
Aron Jóhannsson hefur verið að spila sem sóknarmiðjumaður.
Aron Jóhannsson hefur verið að spila sem sóknarmiðjumaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick Pedersen er fremsti sóknarmaður Vals.
Patrick Pedersen er fremsti sóknarmaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er áhugaverður leikur í 4. umferð Bestu deildarinnar í kvöld þegar FH og Valur mætast í Kaplakrika. Í hlaðvarpsþættinum Fimleikafélagið er hitað upp fyrir leikinn. Orri Freyr Rúnarsson spjallar við Valsarann og sparkspekinginn Jóhann Má Helgason.

Í þættinum fer Jóhann Már meðal annars yfir samvinnu Arons Jóhannssonar, sem hefur verið að leika sem sóknarmiðjumaður, og fremsta manns, Patrick Pedersen.

„Ég held að flestir sem fylgist með Bestu deildinni horfi vel á leikmann númer tíu, Aron Jóhannsson, þegar þeir fara á Valsleiki. Þetta er leikmaður sem var að spila í Werder Bremen. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli en rosalega hæfileika," segir Jóhann en margir telja að best væri að nota Aron sem fremsta sóknarmann.

„Vandamál Heimis er hvernig er hægt að vera með Aron og Patrick í sama byrjunarliði. Þeir hafa ekki verið að tengja alltof vel saman. Það hafa komið spilkaflar, Aron var vaxandi gegn KR og sýndi hversu góður hann er. Hann er með frábæran leikskilning og fyrstu snertingu en ég veit ekki hvort það sé verið að ná öllu úr honum sem er hægt. Stundum kemur hann of djúpt."

„Kristinn Freyr gerði þessa stöðu að listgrein hjá Val og hann og Patrick voru eins og tvíburar inni á vellinum. Þeir vissu alltaf hvar hvor annar var og maður hefur ekki séð þetta núna. Það hafa margir skoðun á því hvernig þetta verði. Heimir er enn að púsla þessu saman og mér finnst liðið ekki hafa stýrt leikjum nægilega vel."

Valur er með fullt hús eftir þrjár umferðir en Jóhann segir að frammistaðan hafi þó ekki verið sérstök og liðinu gangi illa að stýra leikjum.

„Maður fylgdist líka með undirbúningstímabilinu og það var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Maður sá ákveðið framhald af því sem var í gangi síðasta haust. En nú er mótið farið af stað og Heimir er enn að pússa þessu saman," segir Jóhann.

„Hann er ekki 100% ákveðinn með miðjuna sína, það er stóra spurningin. Vörnin liggur algjörlega fyrir, sérstaklega eftir að Orri Ómars meiddist. Hann hreyfir ekkert við vörninni enda hefur hún verið sterkasti þáttur liðsins það sem af er móti og Hólmar Örn komið frábærlega inn í liðið. Miðjan er fyrir mér ekki enn búin að tikka, Hann hefur í þessum þremur leikjum notað sömu miðjuna; Birki Heimisson, Ágúst Eðvald og svo Aron Jóhannsson í holunni."

„Leikurinn gegn Keflavík var ekki góður fótboltaleikur hjá Val og hefði alveg getað dottið í jafntefli. Þeir voru ekkert frábærir gegn Eyjamönnum og svo var það þessi hörkuleikur gegn KR sem hefði getað farið í allar áttir en mér fannst það þó besti leikur Vals, Mér finnst að Haukur Páll eigi að vera á miðjunni til að hafa meiri festu."


Athugasemdir
banner
banner