Það voru afar áhugaverðar fréttir að berast úr þýska boltanum þar sem FC Köln er í titilbaráttu í næstefstu deild og er búið að reka þjálfarann sinn og yfirmann fótboltamála þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af deildartímabilinu.
Gerhard Struber tók við Köln eftir að liðið féll úr efstu deild og var markmiðið skýrt: að komast beint aftur upp í efstu deild.
Undir stjórn Struber tókst Köln að gera flotta hluti í þýska bikarnum áður en liðið var að lokum slegið út eftir framlengdan leik gegn stórliði Bayer Leverkusen. Liðið hefur verið í toppbaráttu allt deildartímabilið en gengið hefur ekki verið nægilega gott undanfarnar vikur. Aðeins tveir sigrar í síðustu sex leikjum þykja ekki viðunandi og því var Struber rekinn í gær ásamt Christian Keller, yfirmanni fótboltamála.
Köln situr í öðru sæti deildarinnar sem stendur, einu stigi á eftir toppliði Hamburger SV þegar tvær umferðir eru eftir. Köln er þremur stigum fyrir ofan næstu lið, Elversberg og Paderborn, en þó með verri markatölu. Síðustu tveir leikirnir eru því gríðarlega mikilvægir og hefur hinn 71 árs gamli Friedhelm Funkel verið ráðinn inn til að stýra liðinu.
Funkel er sérfræðingur þegar kemur að því að komast upp úr 2. Bundesliga. Hann hefur farið upp úr deildinni með sex mismunandi liðum, sem er met í þýska boltanum. Þar að auki er þetta í þriðja sinn sem Funkel tekur við þjálfun Kölnar á ferli sínum.
Funkel starfaði síðast hjá Kaiserslautern í fyrra og kom liðinu afar óvænt alla leið í úrslitaleik þýska bikarsins, en tapaði þar gegn Leverkusen.
„Við eigum góða möguleika á að komast upp um deild og þurfum að gera allt í okkar valdi til að nýta stöðuna. Við getum ekki treyst á að keppinautar okkar klúðri sínum leikjum," segir Werner Wolf, forseti FC Köln.
Athugasemdir