Jökull Ingi Elísabetarson var að vonum svekktur með sína menn eftir 3-0 tap fyrir Aftureldingu á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld. Hann sagði ansi margt hafa farið úrskeiðis hjá sínum mönnum.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 0 Stjarnan
Hvað fannst Jökli hafa farið úrskeiðis hjá sínum mönnum?
„Varnarleikurinn var ekki góður og holningin á okkur ekki góð, sérstaklega í seinni hálfleik. Endum fyrri hálfleikinn af miklum krafti og það hefði verið gott að sjá mark þar en ég átta mig ekki á því hvort það hefði breytt einhverju upp á seinni hálfleikinn. Klárlega ekki ef við hefðum komið út eins og við gerðum, þannig það er af mörgu að taka núna.“
Munurinn á Stjörnuliðinu var gígantískur milli hálfleika, hvað fannst Jökli að breyttist í hálfleik?
„Ég þarf að skoða það aðeins betur en mér finnst að við höldum ekki jafn vel í boltann og tökum ekki jafn góðar ákvarðanir. Við erum svolítið berskjaldaðir til baka þegar við töpum boltanum og þeir komast í alltof góðar, hraðar sóknir á okkur. Bæði auðvitað skora þeir upp úr þannig sókn og það dregur aðeins úr og við aðeins brotnum. Þannig við þurfum að skoða það.“
Ræddi Jökull eitthvað við liðið í hálfleik um að Afturelding væri ítrekað að komast aftur fyrir bakverði Stjörnunnar?
„Við ræðum auðvitað hvernig við viljum stilla upp og það var orðið mjög gott í lok fyrri hálfleiks og það var það sem við ræddum, aðe halda því áfram. Þetta var ekki eins gott í seinni, þannig við þurfum að skoða það.“
Hvað fannst Jökli um atvikið undir lok fyrri hálfleiks þar sem Emil Atla kemur boltanum í net Aftureldingar en Twana dómari dæmir brot á Emil?
„Mér fannst það soft en við getum pikkað út alls konar atriði en það er ekki það sem skildi á milli í dag. Við áttum ekki góðan leik og þeir voru helvíti öflugir. Þetta er gott lið sem þeir eru með og þeir gerðu vel. Það er það sem stendur upp úr og það er það sem við þurfum að skoða, ekki einhver einstaka dómaraatvik, þau skipta engu máli.“
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.