„Ég er gríðarlega ánægður að vera kominn í undanúrslit og spenntur að sjá hverja við fáum á eftir," sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir sigur liðsins á Grindavík í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Það var að koma í ljós að Breiðablik kemur í heimsókn á Greifavöllinn í undanúrslitum.
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Grindavík
„Við spiluðum fínan leik, fyrstu 20-30 (mínúturnar) gríðarlega góðar. Ég hefði bara verið til í að fara með stærri forystu inn í hálfleik, fáum færi, hálffæri og fullt af hornspyrnum," sagði Haddi sem var ekki eins sáttur með seinni hálfleikinn.
„Þeir koma aðeins ofar, þurfa mark. Þá var leikurinn opnari. Við vorum ekki að skapa mikið en spilum ágætlega en hleyptum þeim aðeins of mikið í skyndisóknir, síðan skora þeir frábært mark fyrir utan teig og þá verður smá spenna."
Birgir Baldvinsson skoraði sitt fyrsta mark í búningi KA í dag.
„Hann er kraftmikill og flottur, það eru mörk í honum hann hefur sýnt það áður. Það var gríðarlega gaman að sjá hann skora. Þetta var rétt fyrir hálfleikinn, það var gott fyrir okkur að fara inn í hálfleikinn með forystu," sagði Haddi.