Finnur Orri leggur skóna á hilluna
Finnur Orri Margeirsson tilkynnti það á dögunum að skórnir væru komnir upp á hillu eftir farsælan feril.
Finnur Orri er 33 ára gamall en hann er uppalinn í Breiðabliki. Hann lék sinn fyrsta leik árið 2008 en hann lék alls 439 leiki og skoraði tíu mörk. Hann lék einnig með KR, FH og Lilleström í Noregi á ferlinum. Hann varð Íslandsmeistari með Breiðabliki 2010 en hann varð bikarmeistari árið áður, þá varð hann Íslandsmeistari með KR árið 2019. Hann lauk ferlinum í Hafnarfirðinum en hann lék þar frá 2022.
Finnur Orri er 33 ára gamall en hann er uppalinn í Breiðabliki. Hann lék sinn fyrsta leik árið 2008 en hann lék alls 439 leiki og skoraði tíu mörk. Hann lék einnig með KR, FH og Lilleström í Noregi á ferlinum. Hann varð Íslandsmeistari með Breiðabliki 2010 en hann varð bikarmeistari árið áður, þá varð hann Íslandsmeistari með KR árið 2019. Hann lauk ferlinum í Hafnarfirðinum en hann lék þar frá 2022.
„Já, þetta er erfið ákvörðun. Þetta er ekki ákvörðun sem er tekin yfir eina nótt svo sem. Ég er búinn að leyfa þessu aðeins að marinerast í hausnum á mér frá því tímabilið kláraðist og jafnvel aðeins á undan því. Þegar tímabilið kláraðist þá fór maður alvarlega að velta því fyrir sér hvað maður ætlaði að gera í framhaldinu," sagði Finnur í löngu spjalli við Fótbolta.net.
„Góðir hlutir taka líka enda. Auðvitað er þetta erfið ákvörðun þar sem þetta er það sem maður hefur gert allt sitt líf sem fullorðinn maður og strákur líka. Ég þekki ekkert annað. Stórum ákvörðunum fylgja alls konar pælingar."
Lofaði sjálfum mér því
En af hverju tekurðu þessa ákvörðun núna?
„Einhvern tímann lofaði ég sjálfum mér að ég myndi ekki ganga frá skrokknum mínum á fótboltaferlinum. Núna er komin finnst mér einhver breyting hvað það varðar. Þegar maður lítur yfir allan ferilinn þá var ég ekkert meiddur fram að 2019 eða 2020; ég þekkti það ekki að vera meiddur. Maður gat farið á allar æfingar og verið með í öllum leikjum af fullum krafti. Undanfarin þrjú eða fjögur ár hafa tekið meira á skrokkinn, sérstaklega undanfarin þrjú ár. Ég hef verið í bakveseni og annað," segir Finnur.
„Ég hef fundið það með hverju undirbúningstímabilinu sem líður að maður þarf að hafa meira fyrir því að vera á þeim stað sem maður vill vera á. Ég finn það líka að ég get ekkert gert þetta nema að vera í þessu 'all in'. Það drífur mig áfram. Ég fann það í samráði við þau sem standa mér næst að það væri kominn tími á þetta."
Núna er íslenska undirbúningstímabilið komið á fleygiferð. Finnur var spurður að því hvort það væri ekki skrítið að vera að æfa fótbolta á þessum árstíma?
„Janúar og febrúar á fótboltatímabili á Íslandi er ekki besti tíminn. Kannski verður þetta enn erfiðara í sumar þegar allt fer á fullt. Þegar félagarnir og bróðir minn byrja að keyra á þetta á fullu, þá kemur stundum einhver skrítin tilfinning. En það kemur líka ákveðið frelsi með þessu," segir Finnur.
Lítur stoltur til baka
Finnur afrekaði margt á ferlinum og lítur hann svo sannarlega stoltur til baka.
„Jú, maður er stoltur. Eins og ég segi, þá fylgja því alls konar pælingar þegar maður tekur svona stóra ákvörðun. Maður horfir líka til baka og yfir ferilinn. Ég spilaði 17 ár í efstu deild sem eru forréttindi fyrst og fremst. Að spila með vinum sínum og eignast marga mjög góða vini, að geta farið inn í klefann á hverjum einasta degi og fengið útrás fyrir allt sem þarf og fótboltinn í heild sinni eru bara forréttindi. Að alast upp í fótbolta og þroskast sem einstaklingur þannig eru líka forréttindi," segir Finnur.
„Það hafa komið alls konar tímabil sem hafa kennt manni eitthvað, mismikið og á mismunandi hátt. Ég er mjög ánægður með það hvernig ég hef farið í gegnum ferilinn og gaman að rifja þetta upp með sjálfum mér og með félögum sem hafa farið í gegnum þetta með mér."
Það er margt sem stendur upp úr, margar minningar á leiðinni.
„Það eru mörg augnablik og mörg tímabil sem maður horfir til baka á og þau hafa öll sinn sjarma. Líka þegar maður hefur farið í gegnum erfiða tíma og staðið upp eftir það. Þá horfir maður til baka á þau á góðan hátt þar sem þau gerðu mann sterkari. Svo eru öll hin augnablikin þar sem hlutirnir gengu upp, þegar maður lyfti bikurum og allt það."
„Titlarnir eru afleiðingar af tímabilunum á undan. Tímabilin þar sem titlarnir vinnast eru kannski eftirminnilegust. Samt eru líka tímabil sem sitja ekki eftir hjá neinum nema bara sjálfum manni sem skipta mann persónulega miklu máli. Það eru alls konar tímabil sem maður fór í gegnum þar sem gekk vel eftir að maður þurfti að hafa meira fyrir því. Auðvitað er auðvelt að horfa á þau tímabil þar sem allt gekk upp. En síðan horfir maður í það að þetta mótar allt mann. Ég byrjaði mjög ungur í fótbolta og ef ég tek fyrstu árin í meistaraflokki - óháð titlum - þá voru þau einstök út af fyrir sig. Svo kemur tímabil frá 24 ára upp í þrítugt og þar er maður á vegferð. Svo seinustu þrjú eða fjögur ár... allt hefur þetta sinn sjarma og situr eftir fyrir mismunandi sakir."
„Ég vil að það vilja allir heyra um eitthvað og auðvitað eru nokkur þannig. Til dæmis fyrsti Íslandsmeistaratitilinn með Breiðabliki og þegar við fórum langt í Evrópu, fyrsti bikarinn með Blikum. Svo eru það öll hin augnablikin sem skilja eftir sig," segir Finnur en fótboltinn hefur mótað hann mikið.
„Fótboltinn hefur mótað mig rosalega mikið og ég hef trú á því að það sé þannig hjá fleirum sem hafa verið í honum svona lengi. Hingað til er þetta það sem ég hef alltaf gert frá því ég var strákur og þangað til núna."
Náði að spila með bróður sínum
Eitt það besta við ferilinn hjá Finni var það að hann náði að spila með bróður sínum, Viktori Erni.
„Ég er mjög glaður að það hafi tekist," segir Finnur. „Við náðum einhverjum æfingum saman og leikjum þegar hann var að koma upp og 2021 náum við líka að spila saman. Sem betur fer. Það hefði ekki verið jafngott að fara í gegnum ferilinn ef við hefðum ekki náð því."
Finnur er rosalega stoltur af bróður sínum sem hefur verið lykilmaður fyrir Breiðablik í nokkur ár. Núna fær hann tækifæri til að fylgjast enn frekar með honum.
„Við tölum saman eftir hvern einasta leik, hvort sem ég er að spila eða hann. Ég held að það komi ekkert til með að breytast," segir Finnur.
Hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór?
En hvað tekur við næst þegar fótboltaferlinum er lokið?
„Hvað ætla ég að gera þegar ég verð stór?" segir Finnur léttur.
„Það er alls konar að gerast hjá mér. Ég er búinn að skrá mig í ultra hlaup og ketilbjöllunámskeið í New York. Manían er ekki að fara neitt. Ég og konan mín erum að reka æfingarstöð og það getur farið meiri einbeiting í það. Ég er í dagvinnu sem ég sinni áfram."
Fótboltakaflanum er þó líklega ekki lokið.
„Ég finn það líka að fótboltinn kallar áfram á mig í sama hvaða formi það verður. Ég mun finna því einhvern farveg. Ég er ekkert búinn að ráða mig í neitt gigg því tengdu en ég mun finna íþróttamaníuna góðan farveg."
„Ég hef alveg hugsað út í þjálfun. Það er einn þáttur sem ég horfi til. Það gæti verið spennandi. En ég hef ekki alveg fundið hvað ég vil gera enn. En að þrífast áfram í fótboltanum er eitthvað sem ég vil gera," sagði Finnur Orri að lokum.
Athugasemdir