Onana til Villa - Klopp hefur ekki áhuga á enska landsliðsþjálfarastarfinu - Atletico vill Alvarez
   fös 07. júní 2024 14:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Magnaðasta endurkoma Íslandssögunnar? - „Ég fer fram og svo byrjar þessi geðveiki"
'Tvær tvennur í tveimur leikjum. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að haga mér í leiknum á undan, hvað þá í gær'
'Tvær tvennur í tveimur leikjum. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að haga mér í leiknum á undan, hvað þá í gær'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það voru allir á því máli, það trúði þessu enginn. Þetta er eiginlega fáránlegt'
'Það voru allir á því máli, það trúði þessu enginn. Þetta er eiginlega fáránlegt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net bikarmeistari í fyrra.
Fótbolti.net bikarmeistari í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Sá titilll á heima djúpt í hjartarótum, magnað dæmi'
'Sá titilll á heima djúpt í hjartarótum, magnað dæmi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær átti sér stað líklega ótrúlegasta endurkoma í sögu íslenska fótboltans. Undirritaður man allavega ekki eftir neinni ótrúlegri. Víðir var í heimsókn í Fagralundi í gær og var 2-0 undir gegn KFK þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma. Um þremur mínútum seinna var staðan orðin 2-3 og gestirnir úr Garðinum tóku öll stigin með sér heim.

Fótbolti.net ræddi við Einar Örn Andrésson sem var ein af hetjum Víðis í gærkvöldi, skoraði fyrstu tvö mörkin í endurkomunni.

„Hálfpartinn geðveiki þarna í lokin, þetta var rosalegt. Við bjuggum til lítið af færum í 90 mínútur. Svo fáum við sex mínútur í uppbótartíma og búum þá til 6-7 færi. Snorri aðstoðarþjálfari hendir mér fram, ég er voða lítið fyrir að skora fyrr en allt í einu í síðustu tveimur leikjum. Ég fer fram og svo byrjar þessi geðveiki, hálfpartinn magnað," sagði Einar Örn sem er 23 ára miðvörður.

„Ég hef aldrei áður verið settur fram. Ég var búinn að spila 100 leiki um daginn og hafði skorað eitt mark í þeim. Ég skoraði tvennu um daginn og aftur tvennu núna. Núna eru þetta 102 leikir og fimm mörk í safnið. Tvær tvennur í tveimur leikjum. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að haga mér í leiknum á undan, hvað þá í gær."

Endurkoman var ekki í kortunum fyrr en í uppbótartímanum sjálfum. Mörkin komu á 93., 94. og 96. mínútu.

„Við skiptum um kerfi, settum meiri þunga á þá. Þeir féllu frekar neðarlega fannst mér sem hentar okkur vel. Ég held að fyrsta markið hafi komið eftir horn, ég var þá réttur maður á réttum stað. Mínútu eftir það kemur langur bolti inn á teiginn og ég fæ boltann. Það var voða lítið sem við breyttum, við bara settum þunga á þá og ég veit ekki hvort þeir hafi bara brotnað. Þetta var hálfpartinn magnað."

Var ekkert sagt í 2-2 að fara aftur í ykkar hefðbundna leikskipulag og reynt að halda í stigið?

„Það var það sem ég hugsaði. Ég hljóp og fagnaði, en Dani, sem skoraði svo úrslitamarkið, hljóp beint og náði í boltann og öskraði á mig og strákana að halda áfram. Svo fara Spánverjarnir, tala saman á spænsku og fara í einhverja trix hornspyrnu sem við eigum inni. Dani vissi af mér og Bessa á fjær en einhvern veginn fauk boltinn í vinkilinn. Þetta var bara ringulreið, geggjað, fullt af fólki úr Garðinum. Það var allt tjúllað. Ég var svo stressaður yfir uppbótartímanum, þeir eru orðnir svo langir í dag, ég vildi helst ná mönnum niður á jörðina. Sem betur fer var leikurinn búinn þegar miðjan var tekin."

„Ég hef aldrei upplifað svona dæmi áður, kannski séð eitthvað svona erlendis, en ekkert sem ég hef tekið þátt í. Þetta er bara mjög skrítið. Svenni þjálfari sagði beint eftir leik að þetta væri eitt það fáránlegasta sem hann hefur lent í. Það voru allir á því máli, það trúði þessu enginn. Þetta er eiginlega fáránlegt."

„Það var bara vel fagnað inn í klefa og svo bara áfram gakk. Það er fullt af leikjum eftir og þetta var eitt skref í átt að markmiðinu."

„Ég tók eftir því að einhver fleygði brúsatöskunni þeirra í jörðina, en ég var aðallega að spá í fagnaðarlátunum,"
sagði Einar aðspurður hvort hann hefði tekið eftir einhverjum viðbrögðum hjá andstæðingunum. Hann var mjög feginn að flautað var af strax eftir miðjuna.

„Ég var það, sérstaklega út frá því að það var búið að fleygja manni fram og svo átti maður að fara aftur í hafsentinn. Það var komið svolítið ójafnvægi í okkur. Það hefði kannski ekki verið auðvelt að ná sér alveg niður á jörðina. Það var ákveðinn léttir að þurfa ekki að verjast neinu."

Víðir varð Fótbolti.net bikarmeistari síðasta haust. Hvort var þessi endurkoma skemmtilegri eða að vinna þann titil?

„Það tekur fátt af manni þennan .net bikar, það var stórkostlegt. Elís setur markið svo seint í leiknum og það var rosalega sátt að ná að loka því. Öll þýðingin og umgjörðin í kringum þann leik. Sá titill á heima djúpt í hjartarótum, magnað dæmi."

Hvernig er byrjunin búin að vera í mótinu?

„Mér finnst hún hafa verið góð, við náðum jafntefli á móti Árbæ, fáum rautt spjald á móti Kára í leik tvö og vorum að slípa okkur saman ennþá á þeim tímapunkti. Þetta er allt að mjakast, við ætlum okkur að stíga öll skrefin í átt að okkar markmiðum. Við þurfum að halda áfram, það munu koma hólar og hæðir á leiðinni og við þurfum að vera tilbúnir fyrir það," sagði Einar að lokum.
3. deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Kári 12 8 3 1 38 - 17 +21 27
2.    Víðir 12 7 4 1 37 - 14 +23 25
3.    Árbær 12 7 2 3 24 - 21 +3 23
4.    Augnablik 12 7 0 5 27 - 20 +7 21
5.    ÍH 12 5 2 5 39 - 35 +4 17
6.    Magni 12 4 4 4 14 - 17 -3 16
7.    KFK 12 5 1 6 25 - 33 -8 16
8.    Elliði 12 5 1 6 22 - 33 -11 16
9.    Vængir Júpiters 12 4 1 7 25 - 29 -4 13
10.    Sindri 12 3 2 7 21 - 25 -4 11
11.    Hvíti riddarinn 12 3 2 7 16 - 29 -13 11
12.    KV 12 3 0 9 19 - 34 -15 9
Athugasemdir
banner
banner