Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 08. apríl 2021 12:33
Magnús Már Einarsson
Alexandra: Þorsteinn með áherslur sem hann var með hjá Breiðabliki
Icelandair
Alexandra eftir landsleik í fyrra.
Alexandra eftir landsleik í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður Frankfurt, er klár í slaginn fyrir vináttuleik Íslands og Ítalíu á laugardag en hún hefur jafnað sig af meiðslum.

„Ég fékk aðeins tak framan í læri fyrir tveimur vikum. Þeir vildu ekki taka neina sénsa úti og ég missti af 2-3 leikjum. Ég er í toppstandi núna og tilbúin í þetta verkefni," sagði Alexandra á fréttamannafundi í dag.

Alexandra fór frá Breiðabliki til Frankfurt fyrr í vetur. „Þetta er búið að taka svolítið á andlega. Það getur enginn komið út og allt er lokað úti. Maður fer á æfingar og svo heim að chilla. Ég er að komast betur inn í hlutina og hef bætt mig í tækniatriðum sem hefur verið minn veikleiki. Vonandi næ ég að vinna mig inn í liðið á næstunni," sagði Alexandra sem er ánægð að fá landsliðsverkefni núna.

„Ég er búin að bíða spennt eftir að koma. Það er gott að hitta íslensku stelpurnar og geta talað íslensku. Maður er í comfort zone."

Tæknilega gott lið
Frankfurt komst í bikarúrslit á dögunum en liðið er að elta stórveldin Bayern Munchen og Wolfsburg í Þýskalandi. Wolfsburg er einmitt andstæðingurinn í úrslitaleik bikarsins í maí.

„Tæknilega séð er liðið ótrúlega gott. Það eru margir ungir leikmenn á svipuðum aldri og ég. Þeir eru tæknilega á getu við bestu liðin. Það vantar stundum upp á hausinn og að klára leiki. Það getur allt gerst í bikarnum og ég býst við hörkuleik."

Þorsteinn Halldórsson er að stýra sínum fyrstu leikjum gegn Ítalíu. „Hann er að koma með áherslur sem hann var með hjá Breiðabliki og það er ekki nýtt fyrir mér og Blika stelpurnar. Við erum að leggja mikla áherslu á sóknarleikinn og það er geggjað. Þetta eru engar svakalegar breytingar. Þetta er bara fótbolti."

Líst ótrúlega vel á nýliðana
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði, er fjarverandi vegna meiðsla. Finnur Alexandra fyrir meiri ábyrgð fyrir vikið? „Nei nei. Það stíga allar stelpurnar upp á miðjunni. Við erum með marga leiðtoga innan hópsins og það kemur maður í manns stað."

Nýliðar eru í hópnum en þar á meðal eru Karítas Tómasdóttir frá Selfossi og Hafrún Rakel Halldórsdóttir úr Breiðabliki.

„Mér líst ótrúlega vel á nýliðana. Ég spilaði á móti Karítas nokkrum sinnum og hún er geggjuð. Það er kraftur í henni og hún er algjör vél. Hafrún er ótrúlega góð. Hún spilaði vel síðasta sumar og hún verðskuldar að vera hérna."
Athugasemdir
banner
banner