
„Æi, ég er alveg stolt af liðinu að koma til baka en ég er aðallega svekkt af því að við byrjuðum leikinn svona. Ég skil ekki alveg hvað var í gangi, þetta var bara óboðlegt," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðsfyrirliði, eftir 3-3 jafntefli gegn Sviss í Þjóðadeildinni.
Lestu um leikinn: Ísland 3 - 3 Sviss
Íslenska liðið byrjaði leikinn afar illa og lenti 0-2 undir snemma. „Ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera og hvernig við ættum að laga þetta. Við náðum ekki að klukka þær og það vantaði alla orku sem við töluðum um fyrir leik."
„Svo náðum við að koma inn í þetta. Dagný og Munda komu inn með góða orku."
Íslenska liðið gerði tvöfalda skiptingu í fyrri hálfleik sem vakti liðið til lífsins.
„Við vitum alveg að við erum betri en Sviss en við þurfum að sýna það. Við þurfum að vera með baráttuna og taka ábyrgð. Það var ekki til staðar og þá verður þjálfarinn að gera breytingar. Hann hefði getað tekið margar út af," sagði Ingibjörg en hún vill að liðið sjái til þess að svona kafli - eins og sást fyrstu 30 mínúturnar - komi ekki fyrir aftur.
Allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir