Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   mið 08. júlí 2015 14:30
Elvar Geir Magnússon
Evrópudeildin
Finnarnir telja sig eiga góða möguleika í Krikanum
Fyrirliðinn Pavle Milosavljevic og þjálfarinn Simo Valakari í Kaplakrika í dag.
Fyrirliðinn Pavle Milosavljevic og þjálfarinn Simo Valakari í Kaplakrika í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Simo Valakari, þjálfari SJK, er fyrrum leikmaður Derby County.
Simo Valakari, þjálfari SJK, er fyrrum leikmaður Derby County.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Finnska liðið SJK mætir FH í Kaplakrikanum annað kvöld í seinni leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Þjálfarinn Simo Valakari telur að möguleikar síns liðs séu mjög góðir þrátt fyrir 0-1 tap í fyrri leiknum í Helsinki.

„Við vitum að þetta verður erfiður leikur en metum sem svo að möguleikar okkar séu mjög góðir. Við erum vissulega í erfiðri stöðu en nú þekkja liðin hvort annað aðeins betur og við erum til í slaginn," segir Valakari sem er fyrrum landsliðsmaður Finnlands.

„Í leiknum heima þá fengum við færi til að skora en nýttum þau ekki. Við erum meðvitaðir um að við fáum ekki mörg færi en verðum að nýta þau sem við fáum. FH varðist afar vel sem ein heild í fyrri leiknum og skoraði mikilvægt útivallarmark sem er mikilvægt í leikjum sem þessum. Í lokin á leiknum sáum við svo hversu gott FH er í skyndisóknum og færasköpun. Við þurfum að vera sem heild í þessum leik."

„Við þurfum að vera tilbúnir. Það er mikið jafnvægi í liðinu hjá FH en ef við náum að halda boltanum innan okkar munum við vonandi finna glufur. Vonandi getum við skapað einhver færi gegn þessu öfluga liði."

SJK þurfti að spila fyrri leikinn í Helsinki þar sem heimavöllur liðsins, Seinäjoen keskuskenttä leikvangurinn, er ekki löglegur í Evrópukeppni.

„Fyrir bæði lið var þetta nánast útileikur. Það er auðvitað ekki óskastaða að geta ekki spilað heimaleikina á sínum leikvangi. En það ferðuðust margir stuðningsmenn okkar á völlinn og stemningin var góð. Völlurinn var góður og við vissum það fyrir að við gætum ekki spilað á okkar velli," segir Valakari.

„Það eru enn 90 mínútur eftir og við vitum að við þurfum að skora og vinna til að komast áfram. FH vill stjórna sínum leikjum."

FH gæti verið í toppbaráttunni í Finnlandi
Varnarmaðurinn Pavle Milosavljevic, fyrirliði SJK, telur að liðin séu svipuð að styrkleika. Þau mættust í æfingaleik á Spáni í vetur þar sem Finnarnir höfðu betur.

„Það má búast við jöfnum leik. Það er mjög erfitt að segja til um hvar FH væri í finnsku deildinni því Evrópuleikir eru öðruvísi en deildarleikir og erfitt að meta það. Ef FH spilar eins og liðið gerði gegn okkur þá getur það verið í toppbaráttunni í Finnlandi," segir Milosavljevic.

„Það er erfitt að spila gegn FH og það var erfitt fyrir okkur að opna þetta. Menn eru í góðu formi."

Milosavljevic var beðinn um að nefna þann leikmann sem heillaði sig mest í fyrri leiknum og nefndi hann þar Kassim Doumbia. „Ég er varnarmaður og horfi því meira á varnarmennina," segir Milosavljevic.

SJK varð til 2007 við samruna tveggja félaga og hefur unnið sig hratt upp stigann í finnskum fótbolta. Liðið hafnaði í öðru sæti síðasta tímabil.

Leikur FH og SJK á morgun hefst klukkan 19:15 og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner