Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 08. júlí 2021 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Aðalástæðan fyrir ást minni á Sauðárkróki er fólkið sem hér býr"
Amber Kristin Michel kýlir boltann í burtu
Amber Kristin Michel kýlir boltann í burtu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jacqueline Altschuld
Jacqueline Altschuld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tindastóls liðið
Tindastóls liðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik gegn Fylki
Í leik gegn Fylki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Amber Kristin Michel, markvörður Tindastóls, er á sínu öðru tímabili á Íslandi. Hún gekk í raðir Tindastóls fyrir síðustu leiktíð og hjálpaði liðinu að komast í fyrsta sinn upp í efstu deild.

Amber er 24 ára gömul og kemur hún frá Bandaríkjunum. Hún var valin leikmaður umferðarinnar í 9. umferð Pepsi Max-deildarinnar fyrir frammistöðu sína gegn Stjörnunni á þriðjudag. Fótbolti.net hafði samband við Amber og svaraði hún nokkrum spurningum fréttaritara.

Spilaði með Jacqueline í háskolaboltanum
Ég tek eftir því að þegar þú varst tilkynnt sem leikmaður Tindastóls að þú þekktir Jacqueline Altschuld (sem kom ári áður til Tindastóls). Hvernig þekkiru hana og hvernig seldi hún þér það að koma á Sauðárkrók?

„Ég hitti Jacqueline í háskólanum í San Diego og við spiluðum fótbolta saman í tvö ár með háskólaliðinu. Jacqueline hafði samband við mig um leið og ég kláraði síðasta fótboltaárið í skólanum og sagði mér frá sinni upplifun að spila með Tindastóli. Ég vildi halda áfram að spila fótbolta og líkaði vel sú tilhugsun að spila erlendis með einhverri sem ég þekkti," sagði Amber.

Ómetanlegur tími
Hvernig hefur tíminn á Íslandi verið til þessa?

„Tími minn til þessa hefur verið ómetanlegur. Ég hef upplifað svo marga frábæra hluti á ferðalagi um Íslandi og þegar ég spila með Tindastóli, sérstaklega að komast upp um deild í fyrra."

„Það sem stendur upp úr til þessa er allt fólkið sem ég hef hitt og er orðið svo stór hluti af mínu lífi. Liðið okkar er sannarlega eins og fjölskylda og allir taka manni opnum örmum."

„Allir í bænum hafa tekið vel á móti mér og stutt við bakið á mér. Það er hugsað einstaklega vel um erlendu leikmennina í liðinu."

„Ég nýt þess að búa á Sauðárkróki. Ég ólst upp í borg svo að vera í bæjarfélagi þar sem eru færri en 3000 manns er öðruvísi. Ég hef séð æðisleg sólsetur hér og norðurljósin. Aðalástæðan fyrir ást minni á Sauðárkróki er þó fólkið sem hér býr."


Allir tilbúnir að styðja liðið
Hvernig hefur andrúmsloftið verið í bænum þetta sumarið?

„Andrúmsloftið í kringum liðið hefur verið jákvætt. Því fylgja klárlega margar áskoranir að vera í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins en mér finnst við hafa sýnt að við munum alltaf veita verðuga samkeppni og berjast til að ná sigri, sama hver andstæðingurinn er. Ég skynja spennu í bæjarfélaginu og allir eru tilbúnir að styðja við liðið."

Spáir ekkert í framtíðinni
Ertu með einhver einstaklingsmarkmið varðandi tímabilið?

„Eitt af mínum markmiðum er að liðið haldi sér í deild þeirra bestu. Ég trúi að þetta lið hafi það sem þarf til að halda sætinu í deildinni svo lengi sem við spilum okkar leik og höldum áfram að berjast. Ég er líka með það sem markmið að vaxa sem leikmaður og manneskja utan vallar."

Ertu með eitthvað markmið að fara lengra á þínum ferli en að spila á Íslandi?

„Ég einbeiti mér alltaf að tímabilinu sem er í gangi og spái ekkert í framtíðinni. Að spila fótbolta er það sem ég vil gera og vonandi get ég haldið því áfram sama hvað framtíðin ber í skauti sér. Núna er einbeitingin öll á Tindastóli og markmiðum okkar þessa leiktíðina."

Liðið í heild hélt markinu hreinu
Hveru mikilvæg voru þessi þrjú stig gegn Stjörnunni?

„Við þurftum þessi stig í síðasta leik. Deildin er mjög jöfn og öll stig telja þegar uppi er staðið. Ég er mjög stolt af liðinu, öllum hópnum og þetta var liðssigur. Ef við höldum áfram að gefa allt sem við eigum í leikina þá munum við ná okkar markmiðum."

Varstu ánægð með eigin frammistöðu?

„Ég er mjög ánægð með frammistöðu mína á þriðjudaginn en á sama tíma mjög sátt með vörnina fyrir framan mig. Við náðum að halda hreinu sem lið og það að sjálfsögðu gerir mig mjög glaða," sagði Amber að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner