Van Dijk og Salah til Al-Ahli? - United vill fá Pau Torres - Ronaldo segir Al-Nassr að gera tilboð í De Bruyne - Alonso arftaki Ten Hag?
   mán 08. júlí 2024 21:17
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Hallgrímur Mar bjargaði stigi fyrir KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 1 - 1 KA
1-0 Úlfur Ágúst Björnsson ('27)
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('80, víti)

Lestu um leikinn: FH 1 -  1 KA

FH tók á móti KA í eina leik kvöldsins í Bestu deild karla og tóku heimamenn forystuna eftir 27 mínútur í Hafnarfirði.

Leikurinn hafði verið nokkuð tíðindalítill fram að markinu en það var Úlfur Ágúst Björnsson sem skoraði með skalla í kjölfar hornspyrnu. Böðvar Böðvarsson skallaði boltann til Úlfs sem skoraði og voru KA-menn ósáttir þar sem þeir vildu fá dæmda rangstöðu á Sigurð Bjart Hallsson, sem stóð í rangstöðu beint fyrir framan Steinþór Má Auðunsson markvörð þegar skalli Úlfs fór af stað.

Viðar Örn Kjartansson var í byrjunarliði KA og fékk hann gott færi á 42. mínútu þar sem hann komst einn í gegn en náði ekki að lyfta erfiðum bolta yfir Sindra Kristinn Ólafsson, markvörð FH.

Staðan var 1-0 eftir bragðdaufan fyrri hálfleik og byrjuðu heimamenn seinni hálfleikinn betur. Þeir komust í góðar stöður og áttu skalla í slá eftir hornspyrnu en boltinn rataði ekki í netið.

Leikurinn róaðist niður og jafnaðist út er tók að líða á seinni hálfleikinn og fengu gestirnir frá Akureyri dæmda vítaspyrnu á 79. mínútu, þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson slapp einn í gegn og lyfti boltanum yfir Sindra Kristinn sem braut svo af sér í kjölfarið.

Hallgrímur steig sjálfur á punktinn og skoraði með góðu skoti, þar sem Sindri fór í rétt horn en náði ekki til boltans.

FH sótti á lokakaflanum og fékk góð færi en tókst ekki að gera sigurmark. Niðurstaðan 1-1 jafntefli. Það var hiti í mönnum undir lokin og voru einhverjar minniháttar stympingar að leikslokum.

FH er áfram í fimmta sæti Bestu deildarinnar, með 21 stig eftir 13 umferðir. KA er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið, með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner