Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 08. október 2024 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sæþór Ívan í Hött/Hugin (Staðfest) - Brynjar Þorri framlengir
Mynd: Höttur/Huginn
Mynd: Höttur/Huginn
Sæþór Ívan Viðarsson mun leika með Hetti/Hugin í 2. deild karla á næsta ári eftir að hafa verið kynntur sem nýr leikmaður félagsins í kvöld.

Sæþór er mikill gæðaleikmaður sem mörg félög höfðu áhuga á, en hann kaus að flytja austur á land til að spila á Egilsstöðum.

Sæþór er fæddur 2001 og hefur síðustu tvö ár leikið með ÍR, en þar áður var hann hjá Reyni Sandgerði og Leikni Fáskrúðsfirði.

Sæþór gæti reynst algjör lykilmaður í 2. deildinni en hann er sjálfur alinn upp á Austurlandi þar sem hann spilaði með Leikni F. upp yngri flokkana.

„Við væntumst mikils af honum og teljum að Sæþór smell passi í hópinn sem er farinn að taka á sig flotta mynd fyrir næsta sumar," segir meðal annars í tilkynningu frá félaginu.

Auk þess að krækja í Sæþór er félagið búið að semja við Brynjar Þorra Magnússon, sem á yfir 100 leiki að baki fyrir Hött/Huginn.

Hann er uppalinn hjá Hetti og hefur leikið fyrir félagið allan ferilinn, að undanskildum fyrri hluta nýliðins sumars þegar hann tók stutt stopp hjá KFK í 3. deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner