Björn Steinar Jónsson formaður fótboltadeildar Vals og Arnór Smárason yfirmaður fótboltamála hjá Val.
Valur hefur ráðið Arnór Smárason sem yfirmann fótboltamála hjá félaginu. Arnór er fyrrum leikmaður Vals og var fyrirliði ÍA.
„Arnór lagði skóna á hilluna í haust eftir afar farsælan feril sem atvinnumaður í mörgum af stærstu liðum Skandinavíu. Arnór er skagamaður, hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands og á 26 landsleiki að baki fyrir íslenska A-landsliðið. Þá lék hann um tíma með okkur Valsmönnum við afar góðan orðstír," segir í tilkynningu Vals.
Arnóri er m.a. ætlað að móta heildstæða stefnu félagsins í fótboltanum til framtíðar, auka á faglega umgjörð og tengja yngri flokka félagsins betur við starf meistaraflokkanna.
„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að ráða mig sem yfirmann knattspyrnumála hjá eins stórum og metnaðarfullum klúbbi og Valur er. Að sama skapi hlakka ég mikið til samstarfsins við allt það frábæra fólk sem ég veit að er í Val við að byggja upp og móta framtíðarsýn félagsins,“ segir Arnór í tilkynningunni.
Arnór segist skynja vilja hjá Völsurum þess efnis að fleiri uppaldir leikmenn komi upp í meistaraflokka félagsins.
Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals segir ráðningu Arnórs afar mikilvægan lið í því að auka á fagmennskuna í kringum fótboltann í Val.
„Við erum ótrúlega ánægð með að hafa náð að sannfæra Arnór um að koma með okkur í þessa vegferð. Hann verður lykilaðili í að lyfta fótboltanum hjá okkur á enn hærra plan og af samtölum okkar að dæma þá deilir hann sömu sýn og við í stjórn fótboltans,“ segir Björn Steinar.
Björn segir að reynsla Arnórs erlendis og fagleg þekking hans á fótbolta sé það sem stjórn horfi helst til. Mörg af verkefnum Arnórs séu mikilvæg þegar horft sé til framtíðar og í samkeppninni við önnur félög.
„En ég er hinsvegar algjörlega sannfærður um það að bæði reynsla Arnórs sem leikmanns og bara hvernig týpa hann er muni hjálpa okkur að ná enn betri árangri. Það er stutt síðan hann var inni í klefanum og hann veit vel hvað þarf til þess að búa til sterka liðsheild. Hann mun styðja við þjálfarateymin og hópana okkar í því mikilvæga verkefni,“ segir Björn Steinar að lokum.
Arnór mun formlega hefja störf sem yfirmaður fótboltamála þann 1. janúar n.k. en mun nýta tímann í desember til þess að koma sér inn í nýja starfið.
Athugasemdir