Kluivert orðaður við Newcastle - Gerrard með tilboð frá Carlisle - Sesko og Zubimendi færast nær Arsenal
   sun 08. desember 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Leit mikið upp til Benzema - „Týpa sem allir þjálfarar vilja hafa í liðinu“
Daníel Tristan Guðjohnsen
Daníel Tristan Guðjohnsen
Mynd: Real Madrid
Karim Benzema var átrúnaðargoð Daníels hjá Real Madrid
Karim Benzema var átrúnaðargoð Daníels hjá Real Madrid
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Tristan Guðjohnsen, leikmaður Malmö í Svíþjóð, fær veglegt hrós frá fyrrum þjálfara sínum í spænska stórliðinu Real Madrid, en hann er að vonast til þess að Daníel eigi eftir að verða einn af markahæstu leikmönnum Meistaradeildar Evrópu í framtíðinni.

Framherjinn stóri og stæðilegi framlengdi samning sinn við Malmö í gær og ákvað félagið að leita viðbragða frá fyrrum þjálfurum Daníels.

Malmö talaði við Gonzalo Cuenca, sem þjálfaði Daníel í Cadete B unglingaliði Madrídinga, en hann ber íslenska unglingalandsliðsmanninum söguna vel.

„Ég á margar ljúfar minningar með Dani. Öllum líkaði vel við hann og var hann bæði hógvær og metnaðarfullur. Sem leikmaður þá var hann alhliða framherji sem lagði alltaf hart að sér að bæta einstaklingsgæði sín á sama tíma og hann gerði alltaf það sem var best fyrir liðið. Leikstíll hans er einkar glæsilegur, með mikla tækni og góður að finna samherja sína. Hann er þessi týpa af leikmanni sem allir þjálfarar vilja hafa í liðinu, þar sem hann leggur bæði sitt af mörkum og gerir liðsfélagana betri.“

„Þróun hans og vöxtur sem leikmaður var frábær og tók hann svakalegum framförum tímabilið sem við unnum saman. Hann óx um fjölmarga sentimetra, varð sterkari og smám saman bætti leik sinn,“
sagði Cuenca.

Á þessum tíma fékk Daníel þann heiður að bera fyrirliðaband liðsins er liðið slátraði deildinni gegn leikmönnum sem voru þá árinu eldri.

„Hann varð einn mikilvægasti leikmaður liðsins og átti stóran þátt í því að við unnum deildina. Við töpuðum ekki leik þó andstæðingar okkar voru árinu eldri. Hann átti stóran þátt í því með öllum mörkunum og stoðsendingunum.“

Daníel yfirgaf herbúðir Real Madrid fyrir tveimur árum og samdi við Malmö en Cuenca vonaðist eftir því að hann yrði áfram hjá spænska félaginu.

„Ég var að vonast eftir því að hann yrði áfram, myndi halda áfram að vaxa innan félagsins og einn daginn verða að þeim leikmanni sem hann leit upp til, Karim Benzema. Þetta eru tveir leikmenn með svipaðan prófil, báðir líkamlega sterkir og teknískir — og svo er leikstíll þeirra svipaður. Þeir skora mörg mörk og hafa þennan tengingar hæfileika sem er ekki svo týpískt í fari framherja, en Gudy ákvað að fara eigin leið og breyta um umhverfi. Ég mun ávallt styðja hann í þeim ákvörðunum sem hann tekur.“

Þjálfarinn segist ætla að leyfa sér að dreyma þegar það kemur að framtíð Daníels en hann er að vonast eftir því að hann eigi eftir að verða að einn af markahæstu mönnum Meistaradeildar Evrópu.

„Ég vona að hann sleppi við meiðsli í framtíðinni því ég veit að hann er vinnusamur leikmaður sem mun berjast fyrir draumum sínum og ekki gefast upp fyrr en þeir rætast. Ég er viss um að hann eigi eftir að færa okkur mikla gleði bæði í Malmö og með landsliðinu. Ef ég leyfi mér að dreyma þá vona ég að hann verði einn af markahæstu leikmönnum Meistaradeildarinnar og taki frá tvo miða fyrir mig svo ég geti komið og séð hann spila,“ sagði Cuenca.
Athugasemdir
banner
banner