Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   lau 07. desember 2024 20:06
Brynjar Ingi Erluson
Daníel Tristan framlengir við Malmö
Mynd: Malmö
Daníel skoraði þrennu í sænska bikarnum
Daníel skoraði þrennu í sænska bikarnum
Mynd: Malmö FF
Unglingalandsliðsmaðurinn Daníel Tristan Guðjohnsen hefur framlengt samning sinn við sænska úrvalsdeildarfélagið Malmö til fjögurra ára en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag.

Daníel er 18 ára gamall sóknarmaður sem ólst upp hjá Barcelona en færði sig síðar til Real Madrid.

Hann er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnheiðar Sveinsdóttur, en hann er fæddur árið 2006.

Á síðasta ári gekk hann í raðir Malmö og lofaði afar góðu en erfið bakmeiðsli settu strik í reikninginn og kom hann aðeins við sögu í einum leik.

Hann snéri aftur með aðalliðinu í næst síðustu umferðinni á þessu tímabili er hann kom inn af bekknum í leik gegn Hammarby og fór síðan á kostum í 3. umferð sænska bikarsins er hann gerði þrennu í 5-2 sigri á Torslanda á dögunum.

Daníel hefur nú framlengt við félagið til fjögurra ára eða út 2028.

Nafni hans, Daniel Andersson, sem starfar sem íþróttastjóri Malmö, er hæst ánægður með að hafa framlengt samning framherjans.

„Daníel lofaði afar góðu er hann kom hingað, en því miður varð hann fyrir slæmum meiðslum. Hann hins vegar barðist og er nú kominn aftur. Hann hefur verið fullkomlega heill í haust og sýnt hversu efnilegur hann er. Það er frábært að hann vilji vera áfram hjá Malmö. Þetta er spennandi leikmaður sem er bæði líkamlega sterkur og líka snöggur með góða tækni og kannski það mikilvægasta í þessu er að hann er góður að klára færi,“ sagði Andersson.

Framherjinn var sjálfur glaður með að geta verið áfram í Malmö og segist tilbúinn að takast á við nýtt tímabil.

„Það er frábær tilfinning að framlengja við Malmö og að félagið hafi svona mikla trú á mér. Andlega hefur þetta ár verið mér erfitt með meiðslin, en núna er ég alveg heill og finnst ég sterkari. Ég lærði margt á þessum tíma. Að vera í þessu umhverfi með svona mörgum reyndum leikmönnum er fræðandi og færir mér innblástur.“

„Þrátt fyrir hæð mína myndi ég telja mig sem teknískan leikmann. Hungrið til að skora mörk eða hjálpa liðsfélögum mínum að skora er alltaf til staðar. Leikurinn gegn Torslanda virkaði nánast óraunverulegur. Fyrsta markið var líklega það fallegasta, en fyrst og fremst var bara mikill léttir að skora fyrsta markið fyrir Malmö.“

„Ég trúði því varla þegar ég skoraði annað markið og þá get ég ómögulega lýst þriðja markinu. Það er ómögulegt að koma því í orð hversu ánægður ég var. Mörkin eru mjög þýðingarmikil fyrir sjálfstraustið og hlakka ég til að halda áfram að þróa feril minn hér í Malmö,“
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner