„Þetta eru blendnar tilfinningar. Mér fannst við á köflum vera góðar. Mér fannst leikplanið gott í byrjun leiks og mér fannst það ganga upp. Við lendum í mótlæti þegar Sveindís meiðist og það riðlar við planinu," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, eftir 3-1 tap gegn Þýskalandi í undankeppni EM 2025 í kvöld.
Lestu um leikinn: Þýskaland 3 - 1 Ísland
„Mér fannst mörkin sem við fáum á okkur heldur einföld. Það er erfitt að halda hreinu gegn Þýskalandi en manni langar að þær hafi meira fyrir því en þessi mörk sem þær skora. Samt sem áður finnst mér liðið gefa allt og vinnuframlagið var upp á tíu."
„Þetta eru blendnar tilfinningar. Auðvitað er maður drullusvekkt að tapa en mér fannst margir kaflar í okkar leik fínir. Eitthvað sem við getum tekið með okkur."
Eins og Glódís minnist á, þá fór Sveindís Jane meidd af velli í fyrri hálfleik eftir ljótt brot og það hafði mikil áhrif á liðið.
„Ég hef ekki séð þetta aftur en þetta var frekar ljótt brot. Það þarf mikið til að toga einhvern úr lið. Við vitum svo sem ekki alveg hvað gerðist en það þarf mikið til. Og þetta var viljandi. Mér fannst þetta ógeðslega ljótt brot."
„Ég er ánægð að við héldum áfram og reyndum að spila. Við hugsuðum í hálfleik að við gætum tekið skref áfram í okkar þróun þó að við myndum tapa þessum leik. Við héldum áfram og vorum hugrakkar. Við vorum að skapa færi allan leikinn. Það eru margir mínusar og margir plúsar."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan en Glódís vonar eins og við öll að meiðslin séu ekki alvarleg.
Athugasemdir