„Við erum vel stemmdar og ætlum að halda áfram að byggja ofan á frammistöðunni gegn Póllandi," sagði Diljá Ýr Zomers, landsliðskona, er hún ræddi við Fótbolta.net í hótelgarðinum á hóteli landsliðsins í Hollandi í gær.
Í dag ferðast liðið stutta vegalengd yfir til Þýskalands þar sem leikið verður við heimakonur. Það er annar leikur Íslands í undankeppni EM 2025 eftir frábæran sigur á Póllandi síðasta föstudag.
Í dag ferðast liðið stutta vegalengd yfir til Þýskalands þar sem leikið verður við heimakonur. Það er annar leikur Íslands í undankeppni EM 2025 eftir frábæran sigur á Póllandi síðasta föstudag.
Diljá var frábær í leiknum gegn Póllandi og fékk hún níu í einkunn fyrir frammistöðu sína hér á síðunni. „Besti landsleikur Diljár, algjörlega frábær í dag. Kemur inn í leikinn funheit eftir að hafa verið að raða inn mörkum í Belgíu og kemur Íslandi í 2-0 seint í fyrri hálfleik með virkilega góðum skalla. Var að tengja vel við liðsfélagana, mjög dugleg og sjálfstraustið er sýnilega mjög mikið," skrifaði Sæbjörn Steinke í einkunnagjöf sinni.
„Mér fannst eins og við værum vel tilbúnar og við sýndum það inn á vellinum hversu góðar við getum verið," sagði Diljá í gær. „Það hefur verið mikil bæting og það er aðalmarkmiðið okkar með hverjum glugga, að bæta ofan á frá fyrri glugga. Mér finnst við hafa verið að gera það mjög vel. Þegar liðið er svona nýtt, þá tekur tíma að aðlagast. Ég held að það sé allt að koma og það verður bara betra og betra."
Frekar óhefðbundin leið
Diljá vann sér inn sæti í landsliðinu í fyrra og hefur núna spilað ellefu landsleiki ásamt því að skora tvö mörk. Hún hefur komið sterk inn og spilað vel.
„Ég tel mig hafa fengið mikið traust. Ég er mjög þakklát og það er geggjað að fá að vera partur af þessu," segir Diljá. „Ég hef í gegnum tíðina ekki fundið oft fyrir miklu trausti. Það er gríðarlega mikilvægt og gefur mér helling."
Það var ekki alltaf augljóst að Diljá yrði landsliðskona. Hún náði ekki að sýna sig alveg og sanna í deildinni hér heima og fékk oft á tíðum traust til að spila. Hún spilaði fyrst með FH en fór svo í Stjörnuna eftir að Fimleikafélagið féll úr efstu deild. Hún tók svo eitt tímabil með Val áður en hún fylgdi kærasta sínum, Valgeiri Lunddal, til Svíþjóðar. Valgeir hafði þá gengið í raðir Häcken eftir gott tímabil með Val en Diljá var óviss með það hvað hún ætlaði að gera.
„Ég var orðin þreytt á þessu öllu; inn og út, spila og ekki spila. Að fá tækifæri og nýta það alveg, en fá svo ekkert fyrir það. Ég ákveð að mig langar að flytja með Valgeiri til Svíþjóðar, langar að gefa í skít allt heima, halda áfram í náminu og leika mér bara með einhverju liði í neðri deildunum í Svíþjóð. Ég kaupi mér bara miða aðra leiðina og ætla bara að sjá," segir Diljá.
„Svo gerist það að Valgeir hefur samband við yfirmann fótboltamála í Häcken og segir að ég sé að koma. Hann nefnir einhver lið í neðri deildum og spyr hvað gæti hentað mér vel. Hann biður um nafn hjá mér eftir að Valgeir spyr og skoðar þá einhverjar klippur. Hann býður mér svo að koma á æfingar."
Diljá fer á æfingar hjá Häcken sem var með frábært lið á þessum tíma, eitt það sterkasta í Svíþjóð. Henni gengur vel og fær samning þar.
„Það gengur ótrúlega vel. Ég er að prófa þarna í viku og svo spyr þjálfarinn hvenær ég er að fara heim. Ég sagði við hann að ég væri bara hérna, væri ekkert að fara heim. Svo bjóða þeir mér samning. Ég vann mér inn þennan samning með frammistöðu á æfingu og er komin út í atvinnumennsku eftir að hafa ætlað að hætta."
Diljá, sem er öflugur framherji, hefur að undanförnu raðað inn mörkum með Leuven í Belgíu og er hún þessa stundina markahæsti leikmaður belgísku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa átt góðan tíma í Svíþjóð.
Hægt er að hlusta á spjallið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir