Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
   þri 09. júlí 2024 14:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Særðir eftir síðasta tap á Íslandi - „Þetta einvígi er risastórt fyrir félagið"
Shamrock Rovers tapaði gegn Breiðabliki í fyrra.
Shamrock Rovers tapaði gegn Breiðabliki í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur og Shamrock Rovers eigast við í kvöld.
Víkingur og Shamrock Rovers eigast við í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Shamrock Rovers mætir aftur íslensku liði.
Shamrock Rovers mætir aftur íslensku liði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nær Víkingur að fylgja eftir því sem Blikar gerðu í fyrra?
Nær Víkingur að fylgja eftir því sem Blikar gerðu í fyrra?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Menn eru örugglega aðeins smeykari fyrir þetta einvígi en þeir voru í fyrra," segir írski íþróttafréttamaðurinn Andrew Dempsey í samtali við Fótbolta.net fyrir leik Víkings og Shamrock Rovers í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Víkingsvellinum í kvöld og er uppselt á völlinn. Þetta er annað árið í röð sem Shamrock Rovers mætir íslensku liði, en þeir mættu Breiðabliki í fyrra. Þá töpuðu þeir báðum leikjunum og Blikar fórum áfram. Breiðablik endaði á því að fara í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

„Þessir leikir setja oft tóninn fyrir árið og segja til um það hversu sterk írska deildin er. Rovers hafa átt í erfiðleikum á þessu tímabili og þurfa líklega á smá kraftaverki að halda til að halda titlinum. Þetta einvígi er risastórt fyrir félagið, ekki bara til að bæta upp fyrir tapið gegn Breiðabliki í fyrra heldur líka fjárhagslega þar sem útlit er fyrir að þeir missi af Meistaradeildinni á næsta tímabili."

Eru á verri stað
Shamrock Rovers er á verri stað en þeir voru í fyrra þar sem þeir eru í fjórða sæti í írsku úrvalsdeildinni, 13 stigum frá toppnum.

„Það voru miklar umræður um það að Shamrock Rovers myndi reyna að endurbyggja leikmannahóp sinn eftir fjórða deildartitilinn í röð en það varð ekki að veruleika. Í staðinn varð stöðnun og þeir eru lakari en þeir voru í fyrra. Þeir misstu aðalmarkvörðinn sinn frá síðasta tímabili í Alan Mannus en hann lagði hanskana á hilluna Leon Pohls hefur átt í erfiðleikum með að fylla í hans skarð. Á köflum hafa þeir litið illa út varnarlega en Trevor Clarke og Neil Farrugia, sem misstu af leikjunum gegn Breiðabliki í fyrra, eru komnir til baka eftir meiðsli og það er jákvætt fyrir liðið."

„Tímabilið hefur verið frekar lélegt hjá Rovers. Þeir byrjuðu rólega áður en þeir stóðu sig nokkuð vel í apríl þegar þeir komust á gott skrið. En síðan þá hafa þeir tapað leikjum sem þeir eiga ekki að tapa og eru líklega úr leik í titilbaráttunni. Þeir eru 13 stigum á eftir Shelbourne sem er efstir í deildinni (Damien Duff er þjálfari þeirra) og eru í fjórða sæti deildarinnar. Vissulega eiga þeir leik til góða á Shels en það eru aðeins 14 leikir eftir og þeir verða líklega að vinna þá alla til að halda titlinum," segir Dempsey.

Hvaða leikmenn þarf Víkingur að varast?

„Jack Byrne er líklega hættulegasti leikmaður Shamrock Rovers. Hann flýtti sér til baka eftir meiðsli til að spila við Breiðablik á síðustu leiktíð og hefur átt erfitt uppdráttar síðan þá. Það er líklega mikils til ætlast að Rovers sé að hengja vonir sínar á hann en þeir munu gera það. Johnny Kenny er líka mikilvægur framarlega og vængbakverðirnir Neil Farrugia og Trevor Clarke verða líka lykilmenn."

Fengu mikla gagnrýni í fyrra
Dempsey segir að írska meistaraliðið hafi fengið mikla gagnrýni í fyrra eftir að þeir féllu úr leik gegn Breiðabliki. Tapið særi félagið enn í dag.

„Þeir fengu talsverða gagnrýni eftir tapið. Írsk lið gerast oft sek um að vanmeta óþekkta andstæðinga í Evrópu og þetta var ekkert öðruvísi. Rovers tapaði öllum fjórum leikjum sínum í Evrópu á síðasta tímabili. Þeir unnu deildina, en það var súrt hvernig fór í Evrópu. Tapið gegn Breiðabliki særði þá og hefur líklega enn áhrif á félagið, fjárhagslega og annars háttar," segir Dempsey en það kæmi honum ekki á óvart ef Rovers tapa aftur gegn liði frá Íslandi.

„Miðað við það hvernig þeir hafa verið á þessu tímabili og miðað við fyrri reynslu frá Íslandi, þá kæmi það mér ekki á óvart ef Víkingur vinnur þetta einvígi. Stephen Bradley, stjóri liðsins, hefur talað um að þetta sé 50/50 og maður getur verið sammála því. En það væri auðvitað áfall fyrir Rovers ef þeir falla aftur snemma úr leik."

Leikur Víkings og Shamrock Rovers hefst klukkan 18:45 og verður auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner