
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, lýsti yfir óánægju sinni með spurningu sem leikmaður landsliðsins fékk eftir leikinn gegn Sviss á Evrópumótinu á dögunum er hann sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.
Eftir tapið gegn Sviss var það ljóst að Ísland er úr leik á Evrópumótinu eftir að hafa tapað báðum leikjunum á mótinu til þessa.
Eftir tapið gegn Sviss var það ljóst að Ísland er úr leik á Evrópumótinu eftir að hafa tapað báðum leikjunum á mótinu til þessa.
Eftir leikinn gegn Sviss hefur Steini ítrekað fengið spurningar um framtíð sína með liðið og hefur hann svarað þeim á þá leið að staðan verði tekin þegar mótinu er lokið. Enn er einn leikur eftir gegn Noregi á morgun.
Hann var aftur spurður út í framtíð sína á fundinum í dag.
„Ég er búinn að svara þessari spurningu undanfarið og ég er ekki að fara að svara henni á blaðamannafundi daginn fyrir leik. Mér finnst þetta skrítin spurning," sagði Steini þá og hélt áfram:
„Ég ætla að segja það hreint út. Ég er mjög hreinskilinn maður og mér finnst fáránlegt að spyrja leikmann að því daginn eftir leik hvort að hann vilji þjálfarann áfram eða ekki. Mér finnst það heimskuleg spurning og mér finnst hún dónaleg gagnvart leikmanninum. Þið getið alveg spurt mig um þetta en að spyrja leikmann út í þetta finnst mér... ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota."
Steini fann svo orðið.
„Bara nautheimska," sagði landsliðsþjálfarinn.
Hann var svo beðinn um það síðar á fundinum að útskýra þessi ummæli aðeins betur.
„Í fyrsta lagi stjórna leikmenn ekki því hver er þjálfari. Það er alveg ljóst. Í öðru lagi er leikur eftir og þú setur leikmanninn í óþægilega stöðu að þurfa að ræða þetta mál eitthvað. Daginn eftir leik og leikmenn eru ekki að spá í þetta á þessum tíma. Það er kannski seinni tíma mál fyrir leikmenn að hafa einhverja skoðun á því opinberlega hvað þær hafa að segja um þjálfarann sinn. Mér finnst tímapunkturinn alveg galinn," sagði Steini.
Steini kom ekki inn á það nákvæmlega hvað hann var að vitna í en líklega var hann að tala um viðtal við Alexöndru Jóhannsdóttur sem birtist á Vísi daginn eftir leikinn gegn Sviss. Var hún þar spurð hvort hún væri á þeirri skoðun að ferska vinda vantaði í þjálfarateymið.
Ísland spilar á morgun gegn Noregi í lokaleik sínum á Evrópumótinu. Fyrir leikinn er það ljóst að Noregur er búið að vinna riðilinn og Ísland er úr leik.
Athugasemdir