lau 09. október 2021 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við munum ekki láta þagga niður í okkur"
Rekinn með skömm.
Rekinn með skömm.
Mynd: Getty Images
Fyrr í vikunni ákváðu leikmenn í úrvalsdeild kvenna í Bandaríkjunum að hætta leik um stundarsakir.

Á sjöttu mínútu hættu leikmenn að spila - í leikjum Gotham gegn Washington Spirit, og NC Courage gegn Racing Louisville FC - til að sýna samstöðu í kjölfarið á því að North Carolina Courage rak þjálfarann Paul Riley.

Riley var sakaður af nokkrum leikmönnum sínum um kynferðislega áreitni og misnotkun. Fram kom hjá The Athletic að Riley hefði þvingað leikmenn til að stunda kynlíf með sér, hafi neytt leikmenn til að drekka áfengi með sér, sent dónalegar myndir og fleira. Riley neitar sök.

Leikmannasamtökin í Bandaríkjunum tóku ákvörðun um að stoppa leiki á sjöttu mínútu og sameinast á miðjum vellinum í eina mínútu.

„Við munum ekki láta þagga niður í okkur," segir í yfirlýsingu frá Leikmannasamtökunum.

Fram kemur í grein SI að Mana Shim, sem lék undir stjórn Riley hjá Portland Thorns, hafi lagt fram kvörtun vegna hans hegðunar árið 2015. Það var hins vegar lítið gert í því - fyrr en núna þegar Shim og Sinead Farrelly stigu fram í viðtali við The Athletic og sögðu frá því sem átti sér stað. Frásagnirnar eru sláandi.

Riley var rekinn og Lisa Baird, sem var yfir bandarísku deildinni, sagði jafnframt starfi sínu lausu í kjölfarið á þessu máli. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, og bandaríska knattspyrnusambandið eru núna með þetta mál á borði hjá sér og stendur rannsókn yfir.

Hægt er að lesa ótrúlega grein The Athletic með því að smella hérna.

Athugasemdir
banner
banner
banner