Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 09. október 2023 17:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Dóri Árna stígur í stór fótspor - „Risa tækifæri og mjög spennandi"
Halldór Árnason, nýr þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, nýr þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn og Halldór.
Óskar Hrafn og Halldór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik fagnar marki.
Breiðablik fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spenntur fyrir komandi verkefni.
Spenntur fyrir komandi verkefni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var tilkynnt í gær að Halldór Árnason væri nýr aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Hann tekur við starfinu af Óskari Hrafni Þorvaldssyni eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hans hjá bæði Gróttu og Blikum.

Þetta er annað aðalþjálfarastarf Halldórs á hans ferli en hann var þjálfari KV á árunum 2012-14.

Hann skrifaði undir samning við Breiðablik til þriggja ára.

„Það er auðvitað bara risastórt, mjög spennandi," segir Halldór í samtali við Fótbolta.net um nýja starfið. „Það er mikið stolt sem fylgir þessu. Það má færa rök fyrir því að Breiðablik sé stærsta félag á landinu. Að vera treyst að leiða meistaraflokk karla er gríðarlega spennandi og krefjandi verkefni."

„Það kemur upp tímapunktur að Óskar tilkynnir það að hann ætli að hætta eftir tímabilið. Þá fara einhverjar þreifingar af stað. Í kjölfarið gerast hlutirnir mjög hratt. Þetta er mjög skammur tími þannig lagað," segir Halldór um aðdragandann en hann segist strax hafa verið mjög spenntur fyrir verkefninu.

„Þetta er risa tækifæri og þetta er mjög spennandi. Þetta var engin spurning fyrir mig, þetta er mjög fínt skref. Ég er búinn að vinna með Óskari mjög lengi, búinn að vera aðstoðarþjálfari hans í sex ár. Þegar tímapunkturinn kemur að maður þarf að standa á eigin fótum, þá þarf maður að grípa það. Sá tímapunktur er núna."

Halldór segist ekki endilega hafa hugsað til þess að verða aðalþjálfari núna en hann fór að hugsa um það þegar Óskar ákvað að hætta með Breiðablik.

„Ef Óskar hefði verið áfram með liðið og við hefðum haldið áfram á okkar vegferð, þá hefði það verið fínasti möguleiki að ég hefði verið áfram aðstoðarþjálfari. Fyrst Óskar tók ákvörðun að fara annað þá hefði ég ekki ráðið mig í annað aðstoðarþjálfarastarf. Þá var kominn tímapunktur fyrir mig að taka við liði."

„Ég heyrði í öðrum félögum, en ekkert sem fór í neinar viðræður eða neitt alvarlegt. Það voru einhver önnur félög sem könnuðu áhuga. Breiðablik heillaði mig mest og mér líður vel þar. Um leið og það kom upp, þá var í raun ekkert annað sem ég þurfti að skoða," segir Halldór.

Það eru risastórir leikir framundan
Hann mun stýra liðinu í næstu leikjum í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, hann fer beint í djúpu laugina.

„Það er auðvitað mjög krefjandi en maður verður líka að hugsa þetta þannig að þetta gæti ekki orðið stærra og skemmtilegra. Það er smá hlé núna á milli leikja. Það eru risastórir leikir framundan og ég horfi á það þannig," segir Halldór.

„Við verðum að passa það að slökkva ekki á fótboltalíkamsklukkunni. Þegar tímabilið klárast eru menn vanir að taka mánaðarfrí, en við verðum að halda boltanum gangandi. Við æfum í þessari viku og ég er með gott teymi með mér. Menn halda áfram að æfa. Svo förum við til Skotlands og spilum við varalið Rangers áður en við förum til Belgíu. Við þurfum að minna menn á að það er töluvert eftir af þessu tímabili. Við ætlum að reyna að vera með blöndu af æfingum, bæði taktískar og skemmtilegar líka. Þannig að menn haldist ferskir í þessu."

Er það ljóst hver verður aðstoðarþjálfari og hvernig teymið mun líta út hjá Blikum?

„Nei, það er ekki ljóst. En það eru einhverjar viðræður í gangi. Núna er sá tími þar sem þjálfarar eru að ráða sig og hætta. Við þurfum að vinna í sama tímaramma og önnur félög. Vonandi getum við gengið frá teyminu hratt."

Hef lært ótrúlega mikið af honum
Eins og áður segir þá eru Halldór og Óskar Hrafn búnir að vinna lengi saman. Halldór segist hafa lært mikið af fráfarandi þjálfara Blika.

„Ég hef lært ótrúlega mikið af honum. Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt og farsælt samstarf. Við höfum unnið þetta vel saman. Hann er frábær þjálfari, ástríðufullur og duglegur. Hann er drifinn áfram af metnaði. Ég hef lært ótrúlega mikið af honum og okkar samstarfi," segir Halldór og bætir við:

„Ég er meðvitaður um að ég er að stíga í stór fótspor. Félagið er að sýna mér risa traust að leiða þetta og að stíga í þessi fótspor. Ég mun gera allt sem ég get til að reyna að fylla í þau."
Athugasemdir
banner
banner
banner