
KSÍ hefur ráðið Halldór Jón Sigurðsson, Donna, sem nýjan þjálfara U19 landsliðs kvenna og verður hann jafnframt aðstoðarþjálfari U17/U16 liðs kvenna.
Donni er fæddur árið 1983 og klárar KSÍ Pro gráðu í þjálfun í nóvember. Hann hóf þjálfaraferilinn í meistaraflokki árið 2011 og þjálfaði karlalið Tindastóls og Þórs áður en hann tók við kvennaliði Þórs/KA árið 2017.
Árið 2022 tók Donni við stjórnartaumunum hjá bæði kvennaliði og karlaliði Tindastóls, en stýrði síðan eingöngu kvennaliði félagsins til og með 2025, þar sem hann lauk störfum að loknu nýafstöðnu keppnistímabili.
„KSÍ býður Halldór Jón velkominn til starfa. Fyrsta verkefni hans með U19 liðið er riðill í undankeppni EM 2026 sem fram fer um mánaðamótin nóvember/desember, þar sem ásamt Íslandi verða lið Portúgals, Danmerkur og Kosóvó," segir á heimasíðu KSÍ.
KSÍ greinir frá því að nokkrar tilfæringar verða gerðar á öðrum störfum í yngri landsliðum kvenna. Aldís Ylfa Heimisdóttir mun taka við stöðu yfirmanns hæfileikamótunar og U15 landsliðs kvenna og Margrét Magnúsdóttir mun taka við þjálfun U17/U16 landsliðs kvenna ásamt því að aðstoða Donna með U19 kvenna.
Athugasemdir