Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 10. janúar 2021 23:15
Ívan Guðjón Baldursson
Potter og Steele: Var næstum búinn að klúðra þessu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Jason Steele og Graham Potter gáfu kost á sér í viðtal eftir að Brighton rétt marði D-deildarlið Newport County í enska bikarnum.

Brighton þurfti bráðabana í vítaspyrnukeppni til að slá Newport út, en Newport er þekkt fyrir að stríða stóru liðunum í bikarkeppnum á Englandi.

„Svona getur gerst í FA bikarnum, þetta er mjög erfið keppni og þetta er virkilega einstakur og sérstakur útivöllur sem við mættum á í dag. Það getur hvað sem er gerst hérna og það gerðist líklega í kvöld," sagði Potter að leikslokum áður en hann var spurður út í Steele, markvörð Brighton sem átti sök á jöfnunarmarki Newport undir lok uppbótartímans.

„Jason Steele gerði frábærlega í vítaspyrnukeppninni og á stóran þátt í að við komumst áfram. Ég bjóst ekki við neinu öðru en hörkuleik á virkilega erfiðum velli. Það er mjög erfitt að spila mikinn gæðabolta á þessu grasi."

Steele svaraði einnig spurningum að leikslokum en hann var stórkostlegur í vítaspyrnukeppninni og varði fjórar spyrnur.

„Ég er ánægður með að við höfum komist áfram því ég var næstum búinn að klúðra þessu þarna í lokin. Ég verð að hrósa markmannsþjálfaranum mínum sem skoðaði vítaskyttur Newport fyrir leikinn og gaf mér leiðbeiningar.

„Ég fann fyrir pressu fyrir vítaspyrnurnar. Ég veit að ég átti góðan leik en ég gerði slæm mistök sem kostuðu okkur mark. Sem betur fer náði ég að bæta upp fyrir mistökin."

Athugasemdir
banner
banner