Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
banner
   lau 10. júní 2023 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jói um breytingarnar í Burnley: Er úr þessum Guardiola skóla
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vincent Kompany.
Vincent Kompany.
Mynd: Getty Images
Burnley spilaði frábærlega í vetur.
Burnley spilaði frábærlega í vetur.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson mun á næsta tímabili leika í ensku úrvalsdeildinni á nýjan leik.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur frá 2016 leikið með Burnley en það voru miklar breytingar gerðar hjá félaginu eftir fall úr ensku úrvalsdeildinni. Það fóru margir og komu margir nýir inn. Vincent Kompany tók þá við þjálfun liðsins og gjörbreytti leikstílnum.

Undir stjórn Sean Dyche var liðið þekkt sem varnarsinnað lið sem var alltaf með axlarböndin á. Burnley var mikið í löngum boltum og treysti á föst leikatriði. Núna er félagið að fara aðra leið og spilar allt öðruvísi fótbolta.

„Að vera komnir aftur upp í þessa deild er frábært afrek," sagði Jóhann Berg í samtali við Fótbolta.net fyrir æfingu landsliðsins í gær.

Það var gríðarlega gaman
Hvernig var að taka þátt í þessum miklu breytingum sem áttu sér stað hjá félaginu?

„Það var gríðarlega gaman. Ég spilaði í Hollandi og þetta er kannski meiri þannig stíll. Ég vissi við hverju mátti búast af Kompany. Hann kemur frá Belgíu og er úr þessum Pep Guardiola skóla. Það voru allir sem keyptu þessa hugmyndafræði frá honum og það gekk gríðarlega vel."

„Við erum komnir upp í úrvalsdeildina með því að spila fótbolta í þessari erfiðu deild og það er ótrúlegt afrek."

Kompany er ungur í þjálfarabransanum en hann var frábær leikmaður og var lengi vel fyrirliði Manchester City. Þar fékk hann að læra af Guardiola eins og Jóhann bendir á.

„Hann er frábær þjálfari og er gríðarlega kröfuharður. Hann er ungur og efnilegur, en er á öðru stigi en aðrir þjálfarar í Championship-deildinni. Vonandi sýnir hann líka hversu góður þjálfari hann er í úrvalsdeildinni."

Stuðningsmenn Burnley eru ekki mjög vanir 'Pep Guardiola fótbolta' og segir Jóhann að það hafi tekið áhangendur á Turf Moor tíma að venjast nýjum kafla. „Þeir vildu oft að við myndum krossa fyrr inn í boxið og koma honum fram töluvert fljótar. Hvernig við byggjum upp sóknir hjá Kompany... það getur verið hægt en það er einhver hugmynd á bak við þetta. Það tók smá tíma fyrir stuðningsmennina að kaupa þetta en í lokin - þegar þú ert að vinna alla leiki - þá er ekki annað hægt en að kaupa þessa hugmyndafræði."

Championship-deildin getur verið erfið og oft er það þannig að hún er mjög jöfn, en hún var það ekki í ár. Burnley rústaði henni. Ætlar liðið áfram að spila þennan fótbolta í úrvalsdeildinni?

„Við munum reyna það, en svo verður að koma í ljós í hverjum og einum leik hvernig það er hægt. Við spiluðum á móti Bournemouth og Manchester United, og við áttum tvo flotta leiki. Man City var kannski aðeins of stórt stökk. Þú mátt ekki gera mikið af mistökum í ensku úrvalsdeildinni og við þurfum líka að vera skynsamir."

Jóhann Berg skrifaði undir nýjan samning við Burnley og verður áfram hjá félaginu á næstu leiktíð. „Þegar Kompany kemur inn og hann vill halda mér, þá var aldrei spurning að ég yrði áfram í Burnley," sagði þessi öflugi leikmaður en hann hefur verið að spila inn á miðsvæðinu hjá Kompany og virkað vel í því hlutverki.
Jói Berg: Er eitthvað skemmtilegra?
Athugasemdir
banner
banner
banner