Stjörnumenn standa í ströngu þessa dagana en þeir mæta Val í Pepsi-deildinni í kvöld og leika svo fyrri leikinn gegn Celtic í Glasgow í undankeppni Meistaradeildarinnar næsta miðvikudag.
„Við höfum fengið fínt hlé frá leikjum núna og höfum æft vel. Við erum klárir í hörkuleik," segir Brynjar Gauti Guðjónsson, varnarmaður Stjörnunnar. Íslandsmeistararnir hafa ekki náð að standa undir væntingum og eru í sjötta sæti, 8 stigum á eftir toppliði FH.
„Okkar markmið númer eitt er að ná Evrópusætinu og sjá hverju það skilar okkur. Ef við vinnum Val erum við bara með tveimur stigum minna en á sama tíma í fyrra. Það fær menn kannski til að fá trú á þessu, það er hellingur eftir af mótinu."
Valsmenn hafa verið á flottu skriði og geta sett pressu á keppinauta sína með sigri í kvöld, þá komast þeir upp í annað sætið.
„Valsarar hafa verið virkilega flottir undanfarið og spilað góðan fótbolta. Þeir hafa marga mjög góða leikmenn og þetta verður erfiður leikur en það er kominn tími á sigurleik á Samsung."
Eins og áður segir er Stjarnan að fara að mæta stórliði Celtic á miðvikudaginn en það er varla annað hægt fyrir Garðbæinga en að hafa þann leik líka í huganum?
„Að sjálfsögðu hlakkar mönnum til að spila þann leik en við erum mótiveraðir í að klára Valsleikinn, svo getum við farið að hugsa um leikinn í Skotlandi. Við æfðum í sex mánuði í snjó og innanhúshöllum fyrir þetta. Við erum klárir í hörkuprógramm," segir Brynjar.
Leikur Stjörnunnar og Vals er klukkan 20:00 í kvöld og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir