Mainoo til Napoli? - Höjlund snýr ekki til baka í janúar - Þrír miðjumenn orðaðir við United - Spurs tilbúið að borga 70 milljónir punda
   mán 10. nóvember 2025 15:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Horfa í þrjár stöður og vilja kaupa Jón Sölva af Blikum
Lárus Orri.
Lárus Orri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: ÍA
ÍA er að reyna kaupa Jón Sölva Símonarson af Breiðabiki. Þetta segir Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net. Jón Sölvi er markmaður U19 landsliðsins sem fæddur er árið 2007 og var á láni hjá ÍA á liðnu tímabili. Hann varði mark 2. flokks ÍA í sumar, varð bikarmeistari þar og var varamarkmaður fyrir Árna Marinó Einarsson í meistaraflokknum.

„Við erum að horfa aðallega í þrjár stöður, eitthvað af því getum við leyst innanbúðar hjá okkur, en við ætlum klárlega að styrkja okkur," segir Lárus Orri. Viðtalið má nálgast í spilaranum neðst.

„Ég held það sé ekkert leyndarmál að við erum búnir að vera í sambandi við Breiðablik og við viljum kaupa Jón Sölva. Hann er gríðarlega flottur markmaður og stóð sig mjög vel hjá okkur. Breiðablik hefur ekki viljað selja hann og það verður að koma í ljós hvernig það fer. Ef við fáum hann ekki þá verðum við að leita að öðrum markmanni."

„Við erum að leita okkur að djúpum miðjumanni, það er einna helst akkúrat núna. Ég ætla ekki að segja þér hina stöðuna alveg strax,"
segir Lárus og brosti.

Betra að þeir leiti á önnur mið
„Það er orðið ljóst hverjir fara, það voru þónokkrir leikmenn sem runnu út á samningi og svo voru tveir leikmenn sem við sögðum upp samningum við. Við erum búnir að gera þær breytingar hvað varðar leikmenn sem fara, það verða ekki fleiri nema eitthvað óvænt komi upp á."

Það vakti athygli í síustu viku að samningi Hlyns Sævars Jónssonar hafi verið sagt upp.

„Ég ætla ekki að tala um einstaka leikmenn, það voru fleiri leikmenn. Albert Hafsteins fór líka og Marko sem var einn af lykilmönnum okkar undir lokin þegar fór að ganga vel hjá okkur. Þetta er flókið mál, snýst ekkert bara um hvort menn séu góðir í fótbolta eða ekki, allir þessir þrír eru mjög góðir í fótbolta, heldur snýst þetta líka um hvernig hópurinn okkar er, snýst mikið um þá ungu leikmenn sem eru að koma upp í hópinn hjá okkur. Ég sá það þannig fyrir að þessir leikmenn fengju ekki þær mínútur sem ég hefði viljað þá fá miðað við þann 'status' sem þeir voru með innan félagsins. Það er betra að þeir leiti á önnur mið og þá er pláss fyrir unga leikmenn að koma upp hjá okkur," segir Lárus Orri.
Lárus Orri hæstánægður: Hann er ekkert að koma heim til þess að slaka á
Athugasemdir
banner