Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 11. apríl 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vill fá tvo í viðbót í KR - Var ekki pláss fyrir Almarr
Almarr æfði með KR.
Almarr æfði með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Almarr Ormarsson samdi við Íslandsmeistara Vals fyrir nokkrum vikum síðan.

Hinn 32 ára gamli Almarr var samningslaus en samningur hans við KA rann út eftir síðasta tímabil. Hann æfði með KR í tvo mánuði á undirbúningstímabilinu en fékk ekki samning þar.

Rætt var við Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær þar sem hann var spurður út í félagaskiptagluggann hjá KR. Vesturbæjarstórveldið hefur oft verið stórtækara á leikmannamarkaðnum.

„Ég væri til í að hafa tvo leikmenn í viðbót," sagði Rúnar en hann er að skoða erlenda markaðinn.

„Ég vill vera viss í minni sök. Það er ekki gaman að sækja útlending sem sleppur svo ekki í lið, það kostar okkur bara peninga. Við eigum ekki að vera að taka pláss af okkar íslensku strákum fyrir leikmenn sem eru að berjast um að komast í liðið. Þeir eiga að vera með bestu leikmönnum liðsins ef maður tekur þá. Við höfum allir rekist á veggi með það þjálfararnir, að við höldum að við séum að fá einhvern snilling sem er svo ekki nægilega góður."

Rúnar væri til í að hafa meiri breidd, sérstaklega í varnarlínunni. „Ég er með fullt af sóknarmönnum og miðjumönnum en mig vantar breidd í vörninni."

Hann segir að það sé komin meiri samkeppni á milli félaga á leikmannamarkaðnum, en Valur sé í sérflokki núna út af fjárhagsstöðu. Stundum snúist það líka um val þjálfara og það hafi verið þannig í tilviki miðjumannsins að norðan.

„Það er ekkert gaman þegar það eru bara einhver tvö félög sem eiga mestan pening og eyða mestu, eða fá alla leikmennina. Deildin verður jafnari fyrir vikið. Þetta verður bara jafnara og skemmtilegra," sagði Rúnar.

„Almarr æfði með okkur í tvo mánuði. Ég sagði við hann tvisvar, þrisvar að ég gæti ekki boðið honum samning. Ég settist samt líka niður með honum og sagðist virkilega vera að hugsa það. Hann var að standa sig gríðarlega vel en ég hafði ekki pláss fyrir hann. Ég vill ekki vera að fá Almarr til mín og gera honum það að sitja á bekknum í 15 leiki og koma inn á í sjö, eða byrja inn á í þremur og koma inn á í átta. Hann á að spila finnst mér. Ég vil frekar þá eiga þetta pláss fyrir yngri stráka."

„Almarr er frábær leikmaður en ég ákvað að bjóða honum ekki samning," sagði Rúnar.

Almarr samdi eins og áður segir við Val en hægt er að lesa viðtal við hann hérna.
Útvarpsþátturinn - Alfons, Rúnar Kristins og Meistaradeildin
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner