þri 23. mars 2021 07:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Sérstaklega spennandi fyrir mann sem hefur aldrei farið í atvinnumennsku"
Á eftir að tikka í Íslandsmeistaraboxið
Ég á eftir að verða Íslandsmeistari, það er box sem ég á eftir að tikka í á ferilskránni
Ég á eftir að verða Íslandsmeistari, það er box sem ég á eftir að tikka í á ferilskránni
Mynd: Valur
Túfa og Almarr þekkjast frá tíma þeirra hjá KA.
Túfa og Almarr þekkjast frá tíma þeirra hjá KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir er oft maður fárra orða
Heimir er oft maður fárra orða
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta er besta liðið á Íslandi í dag
Þetta er besta liðið á Íslandi í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég ætla að gera mitt allra allra besta til að vinna mér inn sæti og ef það tekst ekki ætla ég ekkert að vera grenjandi á hliðarlínunni."

Almarr Ormarsson varð 33 ára fyrir mánuði síðan. Hann gerði þá tveggja ára samning við Val sem er hans fimmta félag á ferlinum. Miðjumaðurinn var fyrirliði KA á síðasta tímabili.

Fréttaritari Fótbolta.net heyrði í Almari í gærkvöldi og spurði hann út í félagaskiptin og leikinn á laugardag.

„Ég segi ljómandi. Valsarar eru almennt nokkuð hressir,“ sagði Almarr.

Hvernig var þessi leikur gegn KR á laugardaginn?
Valur vann KR eftir vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins. KR komst í 0-3 í leiknum.

„Hann var svolítið sérstakur, það var nokkurn veginn jafnræði með liðunum en KR skorar bæði rétt fyrir hálfleik og rétt eftir hálfleik. Eftir þriðja markið sem þeir náðu inn skoruðum við fjótlega og náðum svo að jafna. Þetta var klassískur KR – Valur leikur, hiti í mönnum, tæklingar og fjör.“

Var eitthvað sem Valsarar breyttu til að komast inn í leikinn?

Nei, þegar við náðum þessu marki rétt eftir að þeir skoruðu þriðja markið þá fannst mér koma trú í okkar lið. Að sama skapi KR-ingar mögulega eitthvað stressaðir eða kærulausir. Þeir gerðu smá mistök í þessum mörkum sem við refsuðum þeim fyrir. Ég veit ekki hvort það breyttist eitthvað eða það var einfaldlega það að við loksins ákváðum að byrja almennilega leikinn.“

Almarr gat ekki svarað fyrir það hvers vegna æfingamörkin voru notuð í leiknum. „Mögulega til að spara hin mörkin.“

Förum til baka að félagsskiptunum, af hverju veluru að fara í Val?

„Þetta er besta liðið á Íslandi í dag og kannski það félag sem er með eina af bestu umgjörðunum. Valur er að gera vel í að stækka knattspyrnuna og umgjörðina hjá sér. Það eru nokkur lið sem eru að vinna í þessu og hugsa um aðeins meira en að mæta á æfingar og æfa fótbolta."

„Þetta eru Íslandsmeistararnir og sennilega það lið sem ætti að teljast líklegast til að vinna aftur. Þegar þetta bauðst þá fannst mér þetta mjög spennandi, ég á eftir að verða Íslandsmeistari, það er box sem ég á eftir að tikka í á ferilskránni og það er það sem heillar mest, að landa þessum titli.“


Þú talar um umgjörðina, það hlýtur að vera heillandi að félag á Íslandi bjóði upp á það að æfa eins og atvinnumaður hvort sem það sé einu sinni í viku eða oftar?

„Já, algjörlega. Sérstaklega spennandi fyrir mann sem hefur aldrei farið í atvinnumennsku erlendis. Valsarar fara líka skynsamlega leið í þessu, þeir fara ekki „all-in“ í þetta einn tveir og bingó. Heldur var þetta prófað tvisvar í viku og núna er þetta komið í einu sinni í viku í einhvern tíma. Þetta er geggjað og frábært að fá smjörþefinn af þessari menningu.“

Hver var aðdragandinn að því að þú ert leikmaður Vals í dag?

„Ég var búinn að heyra í Túfa (Srdjan Tufegdzic) fyrir áramót, tékkaði stöðuna á þeim. Þá voru þeir eins og öll lið á Íslandi að fara yfir erfitt ár. Á þeim tíma var óvissa með Lasse Petry og Einar Karl [Ingvarsson] var enn leikmaður félagsins."

„Það varð ekki meira úr þessu þá en svo heyrðumst við aftur í byrjun febrúar og hann bauð mér að koma á æfingar með þeim í viku. Ég talaði aðeins við Heimi [Guðjónsson, þjálfara], við vorum sammála um að það væri gaman að skoða þetta frekar og það gekk líka svona glimrandi vel að ég endaði á að skrifa undir.“


Hafa Heimir og Túfa eitthvað rætt við þig um þitt hlutverk í sumar?

„Nei, ekkert brjálæðislega mikið alla vega. Heimir er oft maður fárra orða en ég held við séum svo sem á sömu blaðsíðu með það. Ég geri mér grein fyrir því að það verður erfitt að vinna sér fast sæti í þessu byrjunarliði, það eru fullt af góðum leikmönnnum þarna. Markmiðið hjá mér er að vinna mér inn sæti og spila sem flestar mínútur."

„Hvar á vellinum það verður skiptir mig svo sem engu máli. Ég held að það sé líka aðeins það sem þeir voru að horfa í, þeir vita að ég get leyst miðjuna, farið í holuna, í bakvörðinn og jafnvel út á kant ef það vantar. Ég er alveg tilbúinn í það, að spila þar sem þeir segja mér að spila.

„Hversu mikið það verður á eftir að koma í ljós, ég ætla að gera mitt allra allra besta til að vinna mér inn sæti og ef það tekst ekki ætla ég ekkert að vera grenjandi á hliðarlínunni. Ég mun þá halda bara áfram að æfa vel og spila vel þegar tækifærið kemur.“


Hver er þín uppáhalds staða og hvar líður þér best á vellinum?

„Ég held að mín staða sé þessi svokallaða átta eða „box-to-box“ miðjumaður, þar nýtist ég bæði í því að skila varnarhlutverki og að skila mér inn í teig andstæðinganna. Mér hefur alltaf fundist skemmtilegast að spila í tíunni eða holunni og í sumar spilaði ég í rauninni í stöðunni milli áttunnar og tíunnar."

„Mér líður best á miðsvæðinu en í nútímabolta þá er bakvörðurinn skemmtileg staða og ég kom inn á í vinstri bakverði á móti KR. Það er ný staða fyrir mig en það er líka gaman, maður fær að sækja og taka þátt í spilinu,“
sagði Almarr.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner